Hvað eru endurtryggingar?

Birt í: Viskubrunnur / 8. okt. 2019 / Fara aftur í fréttayfirlit
Hvað eru endurtryggingar?

Endurtryggingar

Vátryggingar eru í eðli sínu áhættusamur rekstur, enda er hlutverk tryggingafélaga að bæta tjón viðskiptavina og erfitt að sjá fyrir hvenær tjón verður og þá hversu stór.

Tryggingafélög reyna því eftir fremsta megni að draga úr sveiflum og áhættu í rekstri. Það er m.a. gert með því að kaupa svokallaðar endurtryggingar af stærri erlendum tryggingafélögum sem sérhæfa sig í að „tryggja tryggingafélög“.

Endurtryggingar tryggja tryggingafélag að hluta til þegar stærri tjón verða. Meðal atburða sem tryggingarfélög tryggja sig fyrir hjá endurtryggjendum eru stórbrunar, hamfara- eða ofsaveður og stórir skipsskaðar.

Yfirleitt reynir því ekki á endurtryggingarnar þegar tjón verður og viðskiptavinir fá þau bætt. Það skiptir hins vegar öllu máli fyrir tryggingafélag að vera með góðar endurtryggingar ef til stórra tjóna kemur.

Samningar sem gerðir eru við endurtryggingafélög eru af ýmsum toga en þó má, með nokkurri einföldun, skipta þeim í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða hlutfallslega endurtryggingasamninga þar sem áhættunni er skipt hlutfallslega milli vátryggjenda (tryggingafélagsins sem kaupir endurtrygginguna) og endurtryggjenda. Hins vegar eru gerðir óhlutfallslegir endurtryggingarsamningar þar sem vátryggjandi skilgreinir það hámark sem hann er reiðubúinn að bera sjálfur í hverju tjóni. Endurtryggjandinn ber þá það tjón sem fer umfram skilgreint hámark.