Vespur og létt bifhjól

Þeim fjölgar stöðugt sem ferðast um göturnar á vespum eða léttum bifhjólum. Ungt fólk er sérstaklega hrifið af þessum ferðamáta. Það er mikilvægt að ökumenn slíkra hjóla og foreldrar þeirra kynni sér vel reglurnar sem gilda um þau og hugi vel að öryggi sínu og annarra vegfarenda.

Sífellt vinsælli ferðamáti

Vespur eru orðnar mjög vinsæll ferðamáti fyrir ungt fólk jafnt sem fullorðna. Það er leyfilegt að aka vespum, sem flokkast sem létt bifhjól í flokki 1, bæði á gangstígum og hjólastígum, því er nauðsynlegt að þeir sem aka þessum bifhjólum þekki vel þær umferðarreglur sem gilda þar. Það er á ábyrgð foreldra að kenna krökkunum þær umferðarreglur sem gilda og hvernig skuli haga akstrinum. Mikil umferð er oft á göngustígum, ekki síst nú þegar sífellt fleiri ganga, hjóla og hlaupa í frítíma sínum. Því er mikilvægt að þeir sem ferðast um á léttum bifhjólum sýni ýtrustu varkárni og tillitssemi. Þannig er hægt að lágmarka slysahættu og stuðla að öryggi okkar allra í umferðinni.   

 

Breytingar á umferðarlögum 2015

Árið 2015 voru gerðar breytingar á umferðarlögum um létt bifhjól og reiðhjól þar sem skerpt var á flokkun þessara ökutækja. Rafmagnsvespur og minni bensínvespur hafa síðan verið flokkaðar sem létt bifhjól í flokki 1. Þetta þýðir meðal annars að nú þarf ökumaður að hafa náð 13 ára aldri til að mega aka slíkri vespu og ekki má aka með farþega fyrr en ökumaður er orðinn tvítugur. Ýmsar aðrar breytingar urðu við þessa flokkun sem hægt er að kynna sér betur hér fyrir neðan.

Spurt og svarað

Léttum bifhjólum er samkvæmt umferðarlögum skipt í tvo flokka, I og II. Létt bifhjól í flokki I eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ekki eru hönnuð fyrir hraðari akstur en 25 km/klst og geta verið með rafmótor eða bensínmótor. Þessi hjól eru skráningarskyld en undanþegin vátryggingarskyldu. Það þýðir að ekki er á þeim lögboðin ökutækjatrygging sem felur í sér ábyrgðar- og slysatryggingu.

Ökumaður þarf að hafa náð 13 ára aldri. Það gildir um þær vespur sem flokkast sem létt bifhjól í flokki 1.

Það er með öllu óheimilt að vera með farþega á léttu bifhjóli nema ökumaður sé 20 ára eða eldri.

Sé ökumaður orðinn 20 ára má hann aðeins vera með farþega ef framleiðandi staðfestir að hjólið sé gert fyrir farþega. Farþeginn verður þá að sitja fyrir aftan ökumanninn og er skylt að vera með hjálm. Farþegi sem er 7 ára eða yngri þarf að sitja í sérstöku sæti sem ætlað er fyrir unga farþega.

Það er því miður alltof algeng sjón að sjá unga ökumenn með allt upp í þrjá farþega á bifhjólunum og oft er enginn með hjálm. Það er því nauðsynlegt að brýna fyrir ungu fólki  þá miklu slysahættu sem skapast við þessar aðstæður og fylgjast vel með að þau fylgi gildandi reglum.

Engin krafa er gerð um nein réttindi eða ökunám fyrir ökumenn sem aka léttu bifhjóli í flokki I. Það er hins vegar mikilvægt að ökumenn þessara hjóla séu meðvitaðir um þær umferðarreglur sem gilda um þau. Það er á ábyrgð foreldra og forráðamanna ungra ökumanna að fara yfir þær reglur sem gilda og hvernig sýna ber öðrum vegfarendum tillitssemi í umferðinni.

Hjólin eru ekki gerð til að fara hraðar en 25 km/klst og óheimilt er að gera breytingar á hjólinu sem auka afl þess og hraða.

Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með því hvort breytingar hafi verið gerðar á hjólinu til að auka afl og hafa eftirlit með slíku.

Það er heimilt að aka léttum bifhjólum á gangstétt, hjólastíg og í almennri umferð. Engu að síður er ekki mælt með að þau séu notuð í almennri umferð þar sem hraði er meiri en 50km/klst, þó að það sé heimilt.

Best er að aka þessum hjólum á hjólastíg eða gangstétt, eftir því sem við á. Ávallt skal víkja fyrir gangandi vegfarendum en þeir hafa forgang á gangstígum samkvæmt umferðarlögum.

Það er ekki vátryggingaskylda á léttum bifhjólum í flokki 1, líkt og á öðrum skráningarskyldum ökutækjum (s.s. bílum og mótorhjólum). Það er því engin lögboðin ökutækjatrygging á hjólinu sem felur í sér ábyrgðartryggingu og slysatryggingu.

Tjón á bifhjólinu, slys sem verða á ökumanni, farþega eða öðrum vegfarendum af völdum þessara hjóla falla heldur ekki undir Fjölskylduvernd, þar sem um skráningarskyld ökutæki er að ræða. Þetta á einnig við um tjón sem ökumaður veldur á léttu bifhjóli.

Það er því mikilvægt að eigendur slíkra ökutækja hafi samband við ráðgjafa okkar og fari yfir hvernig best er að huga að tryggingum fyrir þau.

Hjólin hafa verið skráningarskyld hjá Samgöngustofu frá og með febrúar 2015. Samgöngustofa hefur hins vegar ekki enn hafið skráningu á þeim en mun kynna það þegar skráningarskyldan verður virk.

Mikilvægt er að þeir sem eiga slík hjól fylgist því með stöðu þessara mála á heimasíðu Samgöngustofu.

Frekari upplýsingar

Alþingi samþykkir breytingar á umferðarlögum 17.febrúar 2015. Hægt er að skoða það frekar hér.

Upplýsingar á vef Samgöngustofu varðandi breytingar á umferðarlögum 2015 er að finna hér.

SJ-WSEXTERNAL-3