Vinnustaðurinn Sjóvá

Við leggjum mikla áherslu á að skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem laðar að sér hæft starfsfólk og skapar starfsmönnum tækifæri til að eflast og þróast í starfi.

Aðstaðan

Hjá okkur starfa um 180 manns og þar af um 150 í höfuðstöðvum okkar í Kringlunni 5 en Sjóvá er með útibú víðsvegar um landið. Í Kringlunni störfum við öll í opnu rými, það er því auðvelt að ræða saman og velta hugmyndum á milli, ræða um starfið, koma fram með nýjar hugmyndir eða bara ræða um það sem hæst ber hverju sinni. Á hverri hæð eru fundarherbergi og einnig erum við með fundaraðstöðu á 6.hæðinni til að taka stærri fundi.

Við erum með  líkamsræktaraðstöðu, Þróttheima, í húsinu þar sem eru öll helstu þjálfunartæki ásamt sturtuaðstöðu og gufubaði. Það er því tilvalið að hjóla eða hlaupa til vinnu eða nýta Þróttheima að loknum vinnudegi.

Mötuneytið og kaffihúsið okkar er á 6. hæð í glæsilegum og björtum sal með  útsýni yfir Reykjavík. Matreiðslumeistari Sjóvá og teymi hans útbýr dýrindis hádegisverð á hverjum degi og í kaffihúsinu okkar er ávallt hægt að fá sér gott kaffi og holl millimál.

Starfsmannahópurinn

Við erum öflugt teymi kvenna og karla með fjölbreytta menntun, starfsreynslu og áhugamál. Hjá okkur eru starfsmenn með meistarapróf og sveinspróf í bifvélavirkjun og húsasmíði, háskólagráður í viðskiptafræði, hjúkrunarfræði, félagsvísindum, verkfræði, tölvunarfræði og lögfræði. Aldursbilið er að sama skapi ólíkt og skilja um 45 ár á milli yngsta og elsta starfsmanns okkar. Meðalstarfsaldur er 11 ár og margir búa að langri og víðtækri starfsreynslu meðan aðrir eru að hefja sinn starfsferil með okkur.

Fyrirtækjamenning

Við hjá Sjóvá tökum vel á móti nýjum starfsmönnum og er mikið lagt upp úr öflugri liðsheild og góðum starfsanda. Fyrirtækjamenning okkar einkennist af mikilli þjónustulund, fagmennsku og  samheldni, í bland við keppnisskap og vináttu. Við leggjum áherslu á góð samskipti við viðskiptavini og hvert annað og höfum vegvísana okkar verum á undan, höfum það einfalt, segjum það eins og það er og verum vingjarnleg sem okkar leiðarljós í öllum samskiptum. Við störfum eftir skýru verklagi og tryggjum með því að ráðgjöf og þjónusta okkar sé bæði örugg og áreiðanleg.

Fræðsla og starfsþróun

Við leggjum mikla áherslu á að bæta við okkur þekkingu og erum stöðugt vakandi fyrir tækifærum til að þróast og eflast  í starfi.  Í boði eru fjöldi innanhús námskeiða og fræðslufunda yfir árið. Stærstur hluti fræðslunnar er í höndum sérfræðinga okkar ásamt því sem við fáum inn til okkar áhugaverða fyrirlesara. Við starfrækjum Tryggingaskólann í samstarfi við hin tryggingarfélögin og Háskólann í Reykjavík, þar sem í boði er tveggja anna metnaðarfullt nám í tryggingafræðum. Við erum einnig vel vakandi fyrir nýjungum og spennandi erindum, námskeiðum og ráðstefnum bæði innanlands sem utan.

Mannréttindi

Mannréttindastefnan lýsir áherslum Sjóvár í mannréttindamálum. Markmið stefnunnar er að tryggja að Sjóvá uppfylli allar kröfur laga og reglna um mannréttindamál og sé í fararbroddi á þessu sviði. Með því telur Sjóvá að það stuðli að betra samfélagi og að mannauður félagsins verði sem öflugastur með því að stuðla að jöfnum tækifærum einstaklinga.

Kynntu þér Mannréttindastefnu okkar hér.

Heilsuefling

Við viljum stuðla að  bættri líkamlegri og andlegri heilsu okkar starfsmanna. Við  styrkjum starfsmenn með ýmsum hætti og bjóðum við meðal annars upp á  líkamsræktarstyrki, heilsufarsmælingar og inflúensusprautur. Við niðurgreiðum einnig læknisþjónustu svo sem krabbameinsskoðun, sjúkraþjálfara og sálfræðiþjónustu og erum með samning sem tryggir okkur öruggt og skjótt aðgengi að læknis- og sálfræðiþjónustu.

Félagslíf

Starfsmannafélag Sjóvár,  SSAT, stendur fyrir öflugu og fjölbreyttu félagsstarfi fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra. Haldinn er fjölskyldudagur, jólaball, bingó og margt fleira. Nokkrir klúbbar eru virkir innan SSAT og má þar nefna meðal annars golfklúbbur, hjólaklúbbur og fjallgöngusvið. SSAT sér einnig um leigu orlofshúsa Sjóvár, en Sjóvá á fjögur orlofshús víða um land sem starfsmenn hafa aðgang að.

SJ-WSEXTERNAL-2