Farmtryggingar

Flutningstjón getur haft miklar fjárhagslegar afleiðingar og því mikilvægt að fyrirtæki og einstaklingar hugi vel að tryggingum á vörum í flutningi.

Yfirlit yfir tryggingu

Farmtryggingar bæta fjárhagslegt tjón á vörum í flutningi. Tryggingin bætir einnig tjón sem eigandi vöru getur orðið fyrir í sameiginlegu sjótjóni. 

Hægt er að velja um þrjá mismunandi skil­mála farmtrygginga. A, B og C, þar sem A er víðtækastur en C tryggir ein­göngu altjón ásamt bóta­kröfu í sameiginlegu sjótjóni. 

Íslenskir skilmálar farmtrygging byggja á alþjóðlega stöðluðum skilmálum.

Mikilvægar spurningar

 • Hvað gerist ef vörurnar þínar skaðast eða tapast í flutningi?
 • Ert þú og fyrirtæki þitt í aðstöðu til að takast á við tjón?
 • Þarftu tryggingu sem tekur bara á stærstu tjónum eða þarftu tryggingu sem tekur á öllum tjónum?

Nánar um skilmála farmtrygginga

Víðtæk flutningsvernd

Þessi trygging er sú víðtækasta sem í boði er. Hún bætir allt tap eða skemmdir sem kunna að verða á vörum í flutn­ingi með til­tölu­lega fáum undantekningum, ásamt þátttöku í sameiginlegu sjótjóni og björgunarkostnaði.

Helstu undantekningar eru þessar:

 • Ásetningur eða stórkostlegt gáleysi hins tryggða.
 • Venjulegur leki, rýrnun í þunga eða rúmmáli, eðlilegt slit eða tæring.
 • Ónógar eða óhæfar umbúðir eða lélegur frágangur.
 • Innri skemmdir, eða þegar rekja má tjón til eðlis vörunnar.
 • Tafir, jafnvel þótt töfin hafi orðið vegna bótaskylds tjóns.
Takmörkuð vernd

Samkvæmt þessari tryggingu eru vörur tryggðar gegn tjóni af völdum sérstaklega tilgreindra orsaka, en þó með hliðstæðum undantekningu og í skilmála A.

Þeir áhættuþættir sem tryggingin tekur til:

 • Eldur eða sprenging.
 • Skip eða flutningsfar strandar, tekur niðri, sekkur eða hvolfir.
 • Flutningstæki á landi hvolfir eða fer út af spori.
 • Flugvél hlekkist á eða hrapar.
 • Samtjónsfórn. (Greitt er tjón á farmi sem hent er útbyrðis til að koma í veg fyrir tjón á öðrum farmi).
 • Að farmi er varpað fyrir borð eða honum skolar fyrir borð.
 • Altjón á sjálfstæðum einingum sem falla fyrir borð eða detta niður við lestun eða losun flutningstækis.
 • Þátttaka í sameiginlegu sjótjóni og björgunarkostnaði.
Þröngir skilmálar

Svipaðir skilmálar og í B en tak­markaðri. Þeir bæta t.d. ekki tjón þegar farmi skolar fyrir borð eða sjálfstæðar einingar verða fyrir altjóni er þær falla fyrir borð eða detta niður við lestun eða losun flutningsfars.

Að þessu viðbættu eru einnig til ýmsir sérskilmálar sem semja má um og sníða að þörfum þeim sem viðskiptavinur kann að hafa hverju sinni.

Farmsamningar

Sjóvá býður fyrirtækjum með reglulegan flutning farmsamning. Samningar þessir taka í flestum tilfellum til alls inn- og/eða útflutnings fyrirtækja og getur hvor aðili um sig sagt upp samningnum með 30 daga fyrirvara.

Auk ákvæða í farmsamningum er varða iðgjöld, skilmála, flutningsmáta o.fl. er tengist flutningnum sjálfum, þá eru einnig ákvæði um hvenær viðskiptavinurinn skuli senda inn skilagreinar um flutninga er falla undir samninginn. Þetta ákvæði getur verið mismunandi, allt eftir þörfum hvers um sig.

Farmsamningar hafa ótvíræða kosti í för með sér fyrir báða aðila þar sem þeir tryggja fyrst og fremst öryggi og lægri kostnað.

Kaup og sala vöru

Það er markmið þeirra sem að flutningum standa, kaupanda, seljanda og flutningsaðila, að varan komist áfallalaust á áfangastað. Það kann þó að vera ýmsum vandkvæðum bundið að ná því marki, því að þær vörur sem berast til og frá landinu fara um langan veg, oft heimshorna á milli.

Til að öryggið sé eins og best verður á kosið þarf tvennt að fara saman: Nákvæmt skipulag á framvindu flutnings og góður frágangur seljenda og flytjenda á vörunni.

En þrátt fyrir vandaðan undirbúning og góðan frágang er alltaf ein­hver áhætta til staðar og hana verður að taka með í reikninginn.

Eitt af því sem aðilar þurfa að koma sér saman um í upphafi er hvenær áhættan á því að varan verði fyrir tjóni í flutningum færist frá seljanda til kaupanda. Getur það samkomulag verið með ýmsum hætti. Þegar samið er um afhendingu eru Incoterms® reglur Alþjóða verslunarráðsins (ICC) notaðar.

Þjónusta tengd flutningstryggingum

Inn- og útflytjendum er það afar mikilvægt að eiga greiðan aðgang að lipurri sérfræðiþjónustu á sviði trygginga hvar sem er í heiminum.

Sjóvá hefur samið við sérfræðinga á þessu sviði í fjöl­mörgum löndum um að þeir komi fram fyrir hönd félagsins og veiti fag­lega aðstoð.

Iðgjöld flutningstrygginga eru lág og þýðingarmikið er fyrir íslenska hags­munaaðila, sem stunda inn- og útflutningsverslun og skjólstæðinga þeirra, að hafa sem greiðastan aðgang að tjóns­upp­gjöri. Það gerist best með því að kaupa tryggingarverndina hér á landi.

Flutningstjón

Þegar tjón verður á tryggðri vöru í flutningi skal þegar í stað tilkynna það til Sjóvá. Ef um er að ræða vöru í innflutningi eða innanlandsflutningi, sendir félagið skoðunarmann til að meta tjónið. Ef um er að ræða vöru í útflutningi, þá ber kaupanda að kalla til óháðan skoðunaraðila. Yfirleitt er um að ræða „Lloyd´s Agent“, nema annars sé getið í tryggingarskírteininu.

Upplýsingar um Lloyd's Agent

Í öllum tilvikum er eiganda farms eða umboðsmanni hans skylt að grípa til eðlilegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir tjón eða halda tjóni í lágmarki, svo og að tryggja að allur réttur gagnvart farmflytjanda og öllum öðrum aðilum haldist og verði beitt.

Sérstaklega eru eigandi farms eða umboðsmaður hans beðnir um að gæta að eftirfarandi:

 1. Að gera þegar í stað kröfu á flutningsaðila, hafnaryfirvöld eða aðra umboðsaðila vegna sjálfstæðra eininga sem ekki koma fram við móttöku sendingarinnar.
 2. Að biðja þegar í stað um skoðun tjónsins hjá farmflytjanda eða umboðsmanni flutningsaðila og gera kröfu á farmflytjanda eða umboðsmann hans fyrir þeirri fjárhæð sem rauntjón nemur.
 3. Að taka ekki við vörum, sem eru í vafasömu ástandi, án þess að láta skrá athugasemd á afhendingarseðil.
 4. Að gera flutningsaðila eða umboðsmann hans skriflega ábyrga fyrir tjóni sem ekki varð vart við, við móttöku innan þriggja daga frá því varan var móttekin úr vörslu hans.

Til þess að tryggja fljóta og örugga afgreiðslu tjóna eru eigandi farms (hinn tryggði) eða umboðsmaður hans vinsamlegast beðnir um að senda með tjónakröfu öll fáanleg gögn til stuðnings tjónakröfunni, þar á meðal eftirfarandi gögn eftir því sem við á:

 • Skoðunarskýrsla frá skoðunaraðila Sjóvá eða öðrum viðurkenndum skoðunaraðila og/eða gögn, svo sem myndir sem sýna tjón og upplýsingar/mat á verðmætum.
 • Tryggingarskírteini, tryggingarstaðfestingu eða tilvísun til farmsamnings.
 • Frumrit/samrit af vörureikningi, þar sem fram kemur magn/vigt og verðmæti.
 • Farmbréf eða annar samningur um flutninginn.
 • Frumrit/samrit af móttökukvittun sem veitt er farmflytjanda á ákvörðunarstað.
 • Afrit af samskiptum sem átt hafi sér stað við flutningsaðila eða aðra varðandi hugsanlega ábyrgð þeirra á tjóni í flutningi.

Ábyrgð farm­flytj­anda er háð tak­mörk­unum og er undir vissum kring­um­stæðum ekki fyrir hendi. Á það jafnt við um farm­flytj­endur á sjó, landi og í lofti. Farm­flytj­endur á sjó eru t.d. ekki ábyrgir fyrir tjóni af völdum óveðurs og brot­sjóa. Sé farmur hins vegar ­tryggður bætir Sjóvá tjónið í sam­ræmi við þá trygg­ing­ar­vernd sem um var samið.

Í sjó­flutn­ingum eru tak­mark­anir á ábyrgð farm­flytj­anda skil­greindar í sigl­inga­lögum auk skil­mála sem fram koma á farms­kjölum. Ann­ars vegar er um að ræða aðstæður þar sem ábyrgð er und­an­skilin og hins vegar tak­mark­anir á ábyrgð þar sem tjón er bóta­skylt. Tak­mörkun við til­teknar fjárhæðir er til­greind í SDR, sem er gjaldmiðill skil­greindur af Alþjóða gjald­eyr­is­sjóðnum. Sé tekið dæmi um sjó­flutn­inga nema tak­mörk­un­ar­fjárhæðir SDR 667 fyrir hverja far­mein­ingu (t.d. kassa, bretti) eða SDR 2 fyrir hvert brúttó­kíló vöru. Gildir sú fjárhæð sem hærri er.

Sé gefið út flutn­ings­skjal fyrir fjölþátta flutn­ing (Bill of Lading for Comb­ined Tran­sport eða Sea Waybill for Comb­ined Tran­sport) eru tak­mörk­un­ar­fjárhæðir mis­mun­andi eftir því hvar tjón verður og hvaða flutn­ings­máti er notaður. Þá ákvarðast bætur ým­ist af alþjóðlegum sátt­málum um vöru­flutn­inga eða viðeig­andi lands­lögum þar sem tjónið varð.

Tengdar tryggingar

Lausafé

Lausafé eru til dæmis vörur líkt og hrá­efni, hálf­unnar vörur og full­unnar, umbúðir, hús­munir, innrétt­ingar, vélar og annar rekstr­ar­búnaður eins og verk­færi, áhöld og öku­tæki sem ekki eru skráning­ar­skyld skv. um­ferðarlögum. Fyrir neðan eru helstu tryggingar sem taka á lausafé.

Frjáls ábyrgðartrygging

Það er mikilvægt fyrir þá sem eru í atvinnurekstri að tryggja sig fyrir skaðabótakröfum sem geta beinst að þeim frá þriðja aðila vegna starfseminnar.

SJ-WSEXTERNAL-3