Segjum það eins og það er

Heimurinn hefur breyst og tryggingarnar þurfa að breytast með. Viðskiptavinurinn vill gera hlutina á nýjan hátt og við ætlum að laga okkur að því.

Hlutverk og framtíðarsýn

Framtíðarsýn

Sjóvá er tryggingafélag sem þér líður vel hjá

Þegar þér líður vel hjá fyrirtæki, sem viðskiptavini eða starfsmanni, upplifir þú sátt. Viðskiptavinum okkar líður vel þegar við veitum þeim góða þjónustu og erum sanngjörn. Með því uppskerum við ánægju og tryggð, sem er ómetanlegt.

Hlutverk

Við tryggjum verðmætin í þínu lífi

Með góðri ráðgjöf og réttri tryggingavernd fæst meira fjárhagslegt öryggi. Sú hugarró sem þannig skapast auðveldar viðskiptavinum okkar að njóta þeirra lífsgæða sem þeir sækjast eftir.

Vegvísarnir okkar

Ekkert gleður viðskiptavini meira en þegar við erum á undan þeim. Þegar við erum búin að leysa vandamálin þeirra áður en þeir biðja um það og benda þeim á leiðir til forvarna. Þegar við sýnum frumkvæði og erum á undan samkeppnisaðilum að láta vita af nýjungum, betri kjörum og auknum fríðindum.

Sjálf gleðjumst við þegar samstarfsfólk okkar hjálpar okkur að koma auga á það sem betur má fara. Og við tökum af skarið og erum á undan félögum okkar ef við sjáum eitthvað sem okkur finnst mega bæta.

... þannig sýnum við frumkvæði

Tryggingaheimurinn virkar flókinn á marga. Við sem höfum þekkinguna getum og þurfum að miðla henni á einfaldan hátt til viðskiptavina. Einfaldleikinn bætir skilning og ánægju með samskiptin við okkur. Með einfaldleikanum verðum við trúverðug, aðgreinum okkur frá öðrum og aukum þannig viðskiptatryggð.

Einfaldleikinn er líka gulls ígildi í samskiptum innan fyrirtækisins. Einfaldar skýringar auka skilning milli sviða og hjálpa okkur í samskiptum við viðskiptavini.

… þannig gerum við okkur skiljanleg

Um leið og við setjum okkur í spor annarra þá skiljum við mikilvægi heiðarleika. Að útskýra alla hluti opinskátt og heiðarlega er grundvöllurinn undir traust og varanlegt samband við viðskiptavini. Heiðarleiki felst meðal annars í því að lofa engu sem ekki verður staðið við, að benda á atriði sem jafnvel eru ekki beinlínis söluhvetjandi. Að sýna þannig heiðarleika getur skilað sér margfalt til baka.

Heiðarleiki gagnvart sjálfum sér er síðan lykillinn að því að eflast og þroskast í starfi og samvinnu við félaga sína, sem jafnframt verðskulda heiðarlegt viðmót. … þannig sýnum við heiðarleika

Munum að bros eru ókeypis. Þægileg nærvera er dýrmætur og eftirsóknarverður eiginleiki sem við reynum öll að temja okkur. Vingjarnlegt og hlýlegt viðmót, hjálpsemi og kurteisi kostar ekkert en getur verið ótrúlega verðmætt. Með því að tileinka sér þessa eftirsóknarverðu kosti bætum við upplifun viðskiptavina okkar, treystum sambandinu við þá og auðveldum um leið störf okkar – nokkuð sem öllum þykir eftirsóknarvert.

Fyrir utan jákvæð áhrif á viðskiptavini skilar það að vera kurteis og „næs“ við vinnufélaga sína sér í betri líðan fyrir okkur öll.

… þannig verður allt fyrirtækið eftirsóknarvert

SJ-WSEXTERNAL-2