Viðskiptavinir í Stofni gefa tvær milljónir

Viðskiptavinir í Stofni gefa tvær milljónir

Um nítján þúsund viðskiptavinir tryggingafélagsins Sjóvár í Stofni fengu nýlega endurgreiddan hluta af iðgjöldum sínum vegna síðasta árs hjá félaginu. Í ár nam heildarendurgreiðsla til viðskiptavina tæpum 400 milljónum króna. Hana innleystu viðskiptavinir á lokuðu vefsvæði hjá Sjóvá og um leið gafst þeim kostur á að láta hluta eða alla endurgreiðslu sína renna til góðgerðarmáls, sem í ár var Styrktarsjóður Barnaspítala Hringsins.

Fyrir hönd viðskiptavina afhenti Jóhanna María Eyjólfsdóttir, sérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu og viðskiptavinur í Stofni, stjórnarkonum Hringskvenna endurgreiðsluna, að viðstöddum Ragnari Bjarnasyni lækni og Inger Maríu Sch. Ágústsdóttur hjúkrunarfræðingi og Lárusi Ásgeirssyni forstjóra Sjóvár. Nam upphæðin 2.274.939 króna að meðtöldu 300 þúsund framlagi Sjóvár. Í ár ákváðu rúmlega eitt þúsund Stofnfélagar að verja hluta eða allri endurgreiðslu sinni til barnaspítalans.

Á myndinni eru frá vinstri: Sigrún Hjaltalín, fulltrúi í stjórn Kvenfélagsins Hringsins (KH), Lárus Ásgeirsson, forstjóri Sjóvár, Jóhanna Sigmundsdóttir (KH), Valgerður Einarsdóttir formaður KH og Sjöfn Hjálmtýsdóttir (KH), Jóhanna María Eyjólfsdóttir, fulltrúi Stofnfélaga, Inger María Sch. Ágústsdóttir hjúkrunarfræðingur, Katrín Guðlaugsdóttir læknakandidat og Ragnar Bjarnason yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins.