Vegna umræðu um synjun líftryggingaumsókna

Vegna umræðu sem var í fjölmiðlum í dag um synjun á líf- og heilsutryggingum vill Sjóvá koma eftirfarandi á framfæri.

Sjóvá neitar ekki fólki sjálfkrafa um líf- og heilsutryggingar sem greinst hefur með geðsjúkdóma frekar en aðra sjúkdóma.

Það er hins vegar þannig að allir þeir sem sækja um slíkar tryggingar gefa okkur upplýsingar um heilsufar sitt. Stundum þarf að óska eftir frekari upplýsingum frá lækni viðkomandi. Í langflestum tilfellum er niðurstaðan sú að umsóknir eru samþykktar og trygging gefin út.

Því miður gerist það líka að umsóknum um líf- og heilsutryggingar er synjað. Það getur t.d. verið vegna þess að sjúkdómur er nýlega greindur og ekki ljóst hver árangur verður af meðferð. Í slíkum tilfellum er hægt að sækja aftur um tryggingu þegar áhrif meðferðar eru þekkt.

Þegar líftrygging er gefin út hefur tryggingafélagið skuldbundið sig til að veita hana til margra áratuga, eða til 70 ára aldurs þess sem tryggður er. Ákvörðun um að veita trygginguna er tekin á grundvelli heilsufars hins tryggða í upphafi og breytingar á heilsufari sem verða eftir töku tryggingarinnar hafa ekki áhrif þar á, hvorki á trygginguna sjálfa né iðgjaldið. Þess vegna leggjum við áherslu á að fá eins góðar upplýsingar um heilsufar umsækjanda í upphafi samningstímans og hægt er.

Nánari upplýsingar gefur Sigurjón Andrésson forstöðumaður markaðsmála og forvarna, sigurjon.andresson@sjova.is eða í síma 844-2022.