Vegna umræðu um líftryggingar og tilnefningu rétthafa

Birt í: Almennar fréttir / 27. ágú. 2018 / Fara aftur í fréttayfirlit
Vegna umræðu um líftryggingar og tilnefningu rétthafa

Vegna umræðu í fjölmiðlum um tilnefningu rétthafa bóta úr líftryggingu viljum við koma eftirfarandi á framfæri.

Við hjá Sjóvá leggjum mikla áherslu á að upplýsa viðskiptavini okkar um þá kosti sem þeim standa til boða við tilnefningu rétthafa og hvað felst í þeim, þannig að tilnefningin sé skýr og í samræmi við óskir viðskiptavinarins. Við ítrekum einnig við alla sem sækja um slíka tryggingu að þeir þurfi mögulega að endurskoða tilnefninguna ef breytingar verða á fjölskylduhögum. Þetta er skýrt tekið fram á umsóknareyðublöðum auk þess sem upplýsingar um rétthafa líftryggingarinnar koma fram á skírteini sem við sendum viðskiptavinum árlega við endurnýjun.

Þegar fólk er í óvígðri sambúð og vill tryggja sambúðarmaka framfærslu ef til andláts kemur er nauðsynlegt að nafngreina sambúðarmakann sem rétthafa líftryggingabóta. Ekki er þörf á því þegar fólk er gift. Aðstæður fólks geta hins vegar breyst seinna á lífsleiðinni og því oftast eðlilegt að viðskiptavinurinn geti breytt rétthafaskráningunni síðar. Þess vegna ráðleggjum við viðskiptavinum ekki að tilnefna rétthafa með óafturkallanlegum hætti enda afar sjaldgæft að þörf sé á slíku. Sá möguleiki er hins vegar fyrir hendi ef þess er óskað og sérstök þörf er á.

Þeir sem eru með líftryggingu hjá okkur geta farið yfir hverjir eru skráðir rétthafar á Mínum síðum. Við hvetjum viðskiptavini okkar einnig til að yfirfara upphæðir í líf- og sjúkdómatryggingum sínum reglulega til að þær endurspegli alltaf aðstæður þeirra hverju sinni.

Sjá nánar um líftryggingu og tilnefningu rétthafa.