Vegna umræðu um hækkanir á ökutækjatryggingum

Vegna umræðu um hækkanir á ökutækjatryggingum

Vegna umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um hækkanir á iðgjöldum ökutækjatrygginga umfram almennar verðlagshækkanir viljum við hjá Sjóvá koma eftirfarandi á framfæri.

Hækkanir á iðgjöldum ökutækjatrygginga skýrast fyrst og fremst af því að stór hluti bóta sem greiddur er úr ökutækjatryggingum er vegna líkamstjóna sem fólk verður fyrir í umferðarslysum. Þessar bætur fylgja vísitölu launa að miklu leyti, enda þurfa þær að bæta það tekjutap sem tjónþoli verður fyrir til framtíðar. Þá hafa launahækkanir undanfarinna ára einnig hækkað kostnað vegna viðgerða á ökutækjum.

Í umræðunni hafa hækkanir á ökutækjatryggingum síðustu fjögur ár verið bornar saman við hækkanir á vísitölu neysluverðs og lækkun á vísitölu varahluta. Það gefur hins vegar upp ranga mynd þar sem ekki er litið til mikilla hækkana á launum. Launavísitalan hefur á sama tímabili hækkað um 34% og vísitala viðgerða og viðhalds um 26%. Þessar hækkanir á launum útskýra þannig að megin hluta hækkanir á ökutækjatryggingum, bæði lögbundnum ökutækjatryggingum og kaskótryggingum. Hækkanir kaskótrygginga eru að hluta til vegna hækkana á launum en þar hefur einnig veruleg áhrif að bílafloti landsmanna er orðinn nýrri og sérhæfðari sem kallar á dýrari varahluti. Það ásamt fleiri bílum í umferðinni, auknum umferðarþunga og fjölgun tjóna hefur einnig haft áhrif á hækkun iðgjalda.

VísitalaTímabilHækkun
Bílatryggingar (undirliður í NVV)Apríl 2014 - apríl 201824,00%
LaunavísitalaMars 2014 - mars 201833,80%

Við hvetjum ökumenn til að huga vel að sínum ökutækjatryggingum og hafa í huga að með lögboðinni ökutækjatryggingu eru þeir fyrst og fremst að tryggja sig og aðra fyrir því tjóni sem þeir gætu valdið í umferðinni.

Frekari upplýsingar gefur Sigurjón Andrésson, forstöðumaður markaðsmála og forvarna, sigurjon.andresson@sjova.is eða í síma 844-2022.

Sjá nánar um ökutækjatryggingar.