Vegna umræðu um arðgreiðslur félagsins vill Sjóvá koma eftirfarandi á framfæri

Arðgreiðslugeta síðasta árs er til komin vegna góðrar afkomu fjárfestinga

Tillaga stjórnar Sjóvár um arðgreiðslu til hluthafa hefur sætt gagnrýni undanfarna daga. Rétt er að taka fram að forsenda tillögu um arðgreiðslu byggir á rekstrarniðurstöðu síðasta árs í tilviki Sjóvár en ekki á breyttum reikningsskilum eða breytingu á tjónaskuld eins og haldið hefur verið fram í umræðunni.

Tillagan er í fullu samræmi við núgildandi lög um vátryggingastarfsemi eins og Fjármálaeftirlitið hefur staðfest. Tillagan miðast við að fjárhagsstaða Sjóvár verði áfram jafn sterk eftir greiðslu arðs og hún var í ársbyrjun 2015. Góð afkoma af fjárfestingarstarfsemi Sjóvár í fyrra er grundvöllur fyrir tillögu um greiðslu arðs.

Á árunum 2009 til 2013 var hagnaði Sjóvár eingöngu varið í uppbyggingu og eflingu félagsins og ekki var greiddur út arður. Sjóvá er almenningshlutafélag og skráð á hlutabréfamarkað með yfir 1.500 hluthafa.

Sjóvá endurgreiðir viðskiptavinum í Stofni

Á hverju ári endurgreiðir Sjóvá meira en 20 þúsund viðskiptavinum sem ekki hafa lent í tjónum hluta iðgjalda sinna. Frá árinu 2009 nema þessar greiðslur rúmlega 3 milljörðum króna og á þessu ári munu endurgreiðslur nema um 440 milljónum króna.