Vegna umræðu um afstungur

Vegna umræðu um afstungur

Af og til kemur upp umræða um ökumenn sem stinga af frá tjónum, svokallaðar afstungur. Stundum er því haldið á lofti að umbunarkerfi tryggingafélaganna geti spilað þarna inn í og að þau séu hvetjandi fyrir fólk að hverfa af vettvangi tjóna.

Við hjá Sjóvá höfum ekki orðið vör við að aukning hafi orðið á þessari hegðun ökumanna undanfarin missseri umfram þá aukningu sem orðið hefur á umferð almennt.

Bíleigendum er gert að kaupa sérstaka ábyrgðartryggingu á ökutæki sín. Þetta er skyldutrygging og er henni ætlað að bæta það tjón sem valdið er með ökutækinu. Ef ekki er tilkynnt um tjónið af tjónvaldi þá fellur oft mikill viðgerðarkostnaður á eiganda bifreiðarinnar sem ekið var á.

Það er mismunandi eftir tryggingafélögum hvernig viðskiptavinum er umbunað. Hjá Sjóvá er tryggum viðskiptavinum umbunað fyrir tjónleysi og skilvísi og hluti iðgjalds endurgreiddur eftir endurnýjun trygginga ár hvert. Í 24 ár höfum við umbunað okkar góðu viðskiptavinum tryggðina með Stofnendurgreiðslu og sýna kannanir að mikil ánægja er meðal þeirra með þetta fyrirkomulag.

Það er sannarlega dapurlegt þegar einhver veldur öðrum tjóni og ákveður að koma óheiðarlega fram og stinga af án þess að skilja eftir upplýsingar um sig. Tjónið, sem annars fengist greitt úr ábyrgðartryggingu tjónvaldsins, er þá skilið eftir á herðum tjónþolans, sem á enga sök á óhappinu. Sem betur fer er þó langstærstur hluti fólks heiðarlegt og tekur ábyrgð á sínum gjörðum. Vonandi verður þessi umræða til að hvetja enn fleiri til að koma fram með þeim hætti í stað þess að stinga af í flýti og eiga þetta á samviskunni.

Stofnendurgreiðslan er í okkar huga jákvæður hvati. Hún er sanngirnismál sem hvetur fólk til þess að fara varlega og gera ráðstafanir sem koma í veg fyrir tjón og slys. Hún er verkefni sem ýtir undir að okkar bestu viðskiptavinir njóti betri kjara - Það finnst okkur rétt.

SJ-WSEXTERNAL-2