Vegna fréttar Fréttablaðsins í dag

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt þar sem fjallað er um mál foreldra langveikra barna sem tryggð voru í barnatryggingu hjá okkur. Foreldrarnir leituðu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚNV) eftir andlát barna sinna. Eins og fram kemur í greininni þá eru þessi mál afar erfið viðfangs og okkar hugur er hjá fjölskyldum barnanna.

Sjóvá unir niðurstöðu ÚNV og hefur greitt fullar bætur

Á sínum tíma breyttum við verklagi við töku barnatryggingarinnar í þeim tilgangi að öllum foreldrum yrði gefinn jafn kostur á að tryggja börnin sín fyrir óvæntum áföllum - Þetta þótti okkur sanngjarnt.

Barnatryggingunni okkar var þó aldrei ætlað, frekar en öðrum persónutryggingum, að innifela vernd vegna sjúkdóma og slysa sem verða áður en hún tekur gildi eða vegna meðfæddra eða þekktra sjúkdóma og það er skýrt tekið fram í skilmálum, kynningarefni og í því bréfi sem sent er vátryggingataka í kjölfar töku tryggingar.

Við höfum unað niðurstöðu ÚNV í öllum málunum. Við tókum ákvörðun á sínum tíma að láta ekki reyna á málin fyrir dómstólum og höfum greitt út fullar bætur til þeirra foreldra sem um ræðir.