Vegavernd eykur forvarnir

Grein eftir Þór Sigfússon, forstjóra Sjóvár, í Fréttablaðinu 24. janúar 2008


UMRÆÐAN

Umferðaröryggi
Ingólfur Sverrisson skrifar grein á þriðjudag [22. janúar] um Vegavernd Sjóvár sem er ný þjónusta við viðskiptavini félagsins sem lenda í því að bíll þeirra bilar. Ég vil nota tækifærið og þakka Ingólfi fyrir þann áhuga sem hann sýnir Vegavernd Sjóvá en þessi nýja þjónusta hefur vakið mikla athygli og margir STOFN-félagar Sjóvár hafa þegar nýtt sér hana. Ingólfur veltir fyrir sér hvort réttlætanlegt sé fyrir Sjóvá að gefa öllum STOFN-félögum þessa þjónustu endurgjaldslaust þar sem það hljóti að þýða hærri iðgjöld. Miðað við eftirspurnina eftir þessari þjónustu félagsins fyrstu vikurnar er ljóst að það er þörf fyrir hana.

Vegaþjónusta
Vegaþjónusta fagmanna eins og FÍB, sem sinna þessari þjónustu, getur skilað sér í færri tjónum.
Nokkur slys hafa orðið hér og erlendis þar sem bílar hafa bilað og ökumenn ekki staðið rétt að
málum.

Nýjar leiðir í forvörnum
Sjóvá vill fara nýjar leiðir í forvörnum og umferðarmálum. Boð okkar til ríkisins um að flýta framkvæmdum við stofnbrautir eins og Suðurlandsveg og Vesturlandsveg eða gjöf okkar til viðskiptavina um vegavernd eru leiðir sem geta stuðlað að fækkun slysa og öryggi í umferðinni.
Ingólfur bendir einnig á að þjónustan sé einungis veitt á höfuðborgar svæðinu, Árborg, Reykjanesbæ og á Akureyri. Við stefnum á að veita þessa þjónustu til 80% af íbúum landsins og munum þegar á næstu vikum tilkynna um stækkun þjónustusvæðisins í samvinnu við FÍB.

Höfundur er Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár.