Varist óþarfa vatnstjón

Næstu daga mun hlýna á öllu landinu. Eftir langvarandi snjóa og frostakafla þurfa húsráðendur að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir vatnstjón. Hlýnandi veður eftir snjó og frostakafla þýðir að vatn safnast fyrir. Þegar það gerist verður að hreinsa frá niðurföllum svo þau geti tekið við vatninu. Flest tjón við þessar aðstæður má rekja til þess að ekki var mokað frá niðurföllum eða snjór ekki hreinsaður af þökum og svölum. Reynslan sýnir að allt of mörg vatnstjón hefði auðveldlega verið hægt að fyrirbyggja.

Þetta getur þú gert:

Heimili:
  • Vertu viss um að vatn eigi greiða leið að niðurföllum
  • Brjótið klaka við niðurföll og mokið snjó frá niðurföllum
  • Hreinsaðu sand og lauf úr niðurföllum
  • Hreinsaðu snjó af svölum, losaðu klaka og grýlukerti úr þakrennum og af þakskeggi en gættu að bílum og gangandi vegfarendum
  • Við inngang í kjallara, við glugga og veggi á neðri hæð gæti þurft að moka snjó frá.

Fyrirtæki:
  • Farðu yfir hvort vatns- og hitalagnir virka eðlilega
  • Þar sem ekki er dagleg starfsemi í húsnæði er mælt með að eigendur fari yfir húsnæði og umhverfi til að koma í veg fyrir vatnstjón

Sumarhús:
  • Eftir langa frostakafla þarf að huga að vatnslögnum sumarhúsa. Vatn getur frosið í leiðslum og þegar hlýnar í veðri er hætta á vatnstjóni vegna frostsprunginna lagna.