Varað er við hláku næstu daga

Veðurstofan hefur sent frá sér aðvörun vegna rigningar næstu daga. Það er ekki að ástæðulausu þar sem nú er mikill snjór á jörðu og því rétt að huga að því hvort gera þurfi ráðstafanir. Þú getur kynnt þér betur hér að neðan hvað er gott að hafa í huga.

Þá er rétt að benda fólki á að búast má við miklum svellbunkum á götum og gangstéttum og því rétt að sýna sérstaka varúð í umferðinni og á það við um gangandi jafnt og akandi vegfarendur.  Þar sem gangstéttir eru yfirfullar af snjó þurfa gangandi oft að ganga nærri götunni. Sjóvá hvetur fólk á öllum aldri til að nota endurskinsmerki.  Mikilvægt er við þessar aðstæður að taka tillit til annarra og fara varlega.
  • Mokaðu frá niðurföllum og vertu viss um að þau séu ekki stífluð þar sem lauf, sandur og möl  stíflar þau auðveldlega.
  • Fjarlægðu snjóhengjur og grýlukerti til að koma í veg fyrir að þau falli ofan á gangandi vegfarndur eða bíla með tilheyrandi slysa- og tjónahættu.
  • Hreinsið snjó frá hurðum og gluggum.
  • Mokið snjó af svölum en vertu viss um að slasa ekki gangandi vegfarendur eða moka á bíla sem lagt er upp við húsið.
  • Sumarhúsaeigendum er bent á að huga að vatnslögnum í bústöðum sínum. Þegar frost hefur verið í langan tíma er hætta á að vatn hafi frosið í leiðslum.  Þegar snögglega hlýnar í veðri verður hætta á að vatn þenjist út og sprengi leiðslur með tilheyrandi vatnstjóni.
  • Eigendur húseigna sem ekki eru í notkun ættu jafnframt að huga að ástandi þeirra til að fyrirbyggja tjón.
  • Ef þú hyggur á ferðalög, kynntu þér veður og aðstæður til ferðalaga.  Gakktu úr skugga um að ekki sé hætta á vatnsstjóni á meðan þú ert á ferðalagi.
  • Umsjónarmenn fasteigna og forvarsmenn fyrirtækja og stofnana þurfa einnig að huga að lofthitakerfum hjá sér. Í miklu frosti er hætt við að frjósi í hitablásurum í lofthitakerfum. Fyrir utan vatnstjón getur röskun á starfsemi orðið umtalsverð.
Sjá nánar upplýsingar um veður á vef Veðurstofunnar.