Tvöföldun Suðurlandsvegar árið 2010
Sjóvá og Ístak hafa skoðað lausn sem byggir á 2+2 Suðurlandsvegi sem gæti flýtt framkvæmdum og gert það að verkum að tvöfaldur Suðurlandsvegur á milli Reykjavíkur og Selfoss væri tilbúinn árið 2010. Þessi lausn byggir á nokkrum mislægum vegamótum og hringtorgum, 2,5 metra bili á bili akreina, upplýstri akstursleið og vegriði.
Samkvæmt athugunum félaganna mætti reisa tvöfaldan Suðurlandsveg á 3 árum og kostnaður við veginn er áætlaður 7,5-8 milljarðar króna. Í þeirri lausn sem Sjóvá og Ístak kynna er minna bil á milli akreina og hringtorgum fjölgað í stað mislægra vegamóta. Þó er stór hluti leiðarinnar, eða 28 kílómetra kafli, án allra hindrana. Seinna, þegar umferð eykst, er hægt að byggja fleiri mislæg vegamót þar sem hringtorg eru hönnuð núna.
Ótvíræðir kostir 2+2 vegar
Vegagerðin áætlaði nýverið að kostnaður við gerð 2+2 Suðurlandsvegar næmi um 13,5 milljörðum króna en 2+1 vegur kostaði 5,8 milljarða. Kostir 2+2 vegar eru ótvíræðir en þar sem kostnaðarmunur er mikill hafa heyrst efasemdir um að mikill kostnaður við 2+2 veg sé réttlætanlegur þar sem mörg önnur aðkallandi verkefni bíða úrlausnar.
Kostir þessarar lausnar sem Sjóvá og Ístak kynna eru:
• Kostnaður er aðeins um 30 til 40 % hærri en kostnaður við 2+1 veg.
• Komin er framtíðarlausn sem tryggir öryggi vegfarenda.
• Afköst 2+2 vegar eru mun meiri en 2+1 vegar
• Truflun á framkvæmdartíma er minni þar sem miðdeilir aðskilur núverandi umferð og framkvæmdir
• Minni líkur eru á að umferð yfir Hellisheiði stöðvist við óhapp þar sem beina má umferð yfir á gagnstæðan veghluta
• Aukið öryggi vegarins þar sem engar vinstribeygjur þvert á meginstrauminn eru leyfðar.
• Ljósastaurar verða staðsettir í miðdeili innan vegriðs sem kemur í veg fyrir slys vegna aksturs á ljósastaura. Við þetta eykst öryggi vegfarenda umtalsvert.
Hagkvæmari leiðir
Með þeim hugmyndum, sem hér eru settar fram, er bent á hagkvæmari leiðir við lagningu 2+2 vegar en 2+2 vegur hefur marga kosti fram yfir 2+1 veg.
Sjóvá og Ístak telja að til séu lausnir sem uppfylli kröfur um öryggi, afköst og þægindi sem geti verið hagkvæmar. Ef farið er í þessar framkvæmdir gera þessir aðilar ráð fyrir að framkvæmdin geti tekið rúm tvö ár og henni gæti verið lokið árið 2010. Ef Suðurlandsvegur verður boðinn út í einkaframkvæmd hafa Sjóvá og Ístak og samstarfsaðilar þeirra áhuga á að fá að bjóða í framkvæmdina og ljúka henni á 3 árum.