Algengt verð á reykskynjara er um 1.500 krónur og uppsetning tekur fimm til tíu mínútur. Vælið í reykskynjara getur ráðið úrslitum um hvort fólk lifir eða deyr þegar eldur kemur upp.
Eldvarnaátak LSS um land allt
LSS og Eldvarnabandalagið hafa tekið höndum saman um að vekja athygli almennings á mikilvægi eldvarna. LSS og slökkviliðin í landinu heimsækja börn í 3. bekk grunnskóla um allt land dagana 19.-30. nóvember og veita þeim og fjölskyldum þeirra fræðslu um eldvarnir. Öll börnin fá að gjöf söguna af Brennu-Vargi og slökkvihetjunum Loga og Glóð og gefst kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni. Samkvæmt könnun Capacent telja um 99% aðspurðra átak LSS mikilvægt.
Handbók heimilisins um eldvarnir kemur út
Eldvarnabandalagið gefur í dag út ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir og verður því dreift í talsverðu upplagi. Það verður einnig aðgengilegt á vefsíðum þeirra sem standa að bandalaginu. Þá sendir Eldvarnabandalagið bréf um eldvarnir til allra heimila í landinu í næstu viku. Það hyggst einnig beita sér fyrir því að stjórnvöld geri strangari kröfur um eldvarnir á heimilum, meðal annars um að leigusölum verði gert að tryggja lágmarks eldvarnir í leiguhúsnæði.
Helstu niðurstöður Capacent: Eldvörnum mjög ábótavant
Með þessum aðgerðum vilja Eldvarnabandalagið og LSS stuðla að auknum eldvörnum á heimilum enda sýnir könnun Capacent að stór hluti heimila þarf að huga miklu betur að eldvörnum. Könnunin var gerð 21.-27. október síðastliðinn. Helstu niðurstöður hennar eru þessar:
-
4% heimila eru án reykskynjara en athygli vekur að meirihluti þeirra segist eiga óuppsettan reykskynjara. Á öðrum 28% heimila er aðeins einn reykskynjari. Eindregið er mælt með tveimur eða fleiri virkum reykskynjurum á hverju heimili.
-
Slökkvitæki er á um 68% heimila. Það er nokkur aukning frá sambærilegum könnunum 2006 og 2008.
-
Aðeins um 57% heimila segjast eiga eldvarnateppi. Mælt er með því að hafa eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsi.
-
Tæplega 45% segjast vera með allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi en það teljast vera lágmarks eldvarnir á heimili.
Nýtt bandalag um auknar eldvarnir
Eldvarnabandalagið var stofnað 1. júní 2010 og er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir heimilanna. Aðild að því eiga: Mannvirkjastofnun, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf.