Þarf ég að tryggja hjólið mitt?

Þarf ég að tryggja hjólið mitt?

Hjólreiðar hafa aldrei verið vinsælli en nú og flykkjast landsmenn út á stígana á alls kyns farartækjum. Hjól eru víða uppseld og hefur umferð á göngu- og hjólastígum margfaldast milli ára.

Það er því góð ástæða til að fara yfir nokkur atriði sem þarf að hafa í huga áður en sest er á hjólið.

Þarf ég að tryggja mig eða hjólið sérstaklega?

Almennt ertu vel tryggð/ur fyrir slysum ef þú ert með Fjölskylduvernd sem innifelur Slysatryggingu í frítíma. Sú trygging fylgir Fjölskylduvernd 2 og 3 en er valkvæð í Fjölskylduvernd 1. Þetta á við sama hvort þú ferðast um á reiðhjóli, rafhjóli, rafmagnshlaupahjóli eða vespu sem kemst ekki hraðar en 25 km/klst. Ef þú tekur þátt í hjólreiðkeppnum gætirðu þó þurft að slysatryggja þig sérstaklega.

Hjólið er einnig tryggt í Fjölskylduvernd. Ef hjólið þitt er dýrara en Fjölskylduverndin þín nær yfir ráðleggjum við þér að kaupa sérstaka Reiðhjólatryggingu.

Hér má nálgast ítarlegri upplýsingar um hjólreiðar og tryggingar.

Hvaða búnað þarf ég að vera með á hjólinu?

Mikilvægasti öryggisbúnaðurinn á hjóli er hjálmur. Það er hjálmaskylda á Íslandi fyrir alla sem eru undir 16 ára aldri en það ættu allir að nota hjálm þegar þeir hjóla, þeir hafa margsannað gildi sitt.

Þegar hjólað er í myrkri þá þarf að vera með ljós bæði að aftan og framan, hvítt að framan og rautt að aftan. Einnig er gott að vera í fatnaði sem sést vel, endurskinsvesti eða með endurskinsmerki.

Hvaða reglur gilda á göngu- og hjólastígum?

Almennt gildir reglan um hægri umferð á göngu- og hjólastígum, og á það við bæði um hjólandi og gangandi vegfarendur. Það þýðir að hjólað og gengið er hægra megin á stíg og tekið fram úr vinstra megin. Hjólreiðafólki ber að víkja fyrir gangandi umferð og því er mikilvægt að hægja vel á sér og láta vita með hljóðmerki með góðum fyrirvara áður en tekið er fram úr fólki.

Mikill hraði á göngustígum fer ekki saman við gangandi umferð og skapar hættu á alvarlegum slysum. Hjólreiðafólk sem ætlar að hjóla á miklum hraða ætti ekki að nota göngustíga heldur hjóla á akbraut eða sérmerktum hjólastígum. Þess ber þó að gæta að mikil umferð getur verið á hjólastígum, bæði börn og óreyndir hjólreiðamenn, og því mikilvægt að taka einnig tillit til þess og vera meðvitaður um umhverfi sitt.