Sparnaðarlíftrygging þín hjá Sjóvá‐Almennum líftryggingum hf.

Sparnaðarlíftrygging þín hjá Sjóvá‐Almennum líftryggingum hf. samanstendur af líftryggingu og reglubundnum sparnaði. Síðan í október hafa verið takmarkanir á því með hvaða hætti hefur verið hægt að ráðstafa sparnaði viðskiptavina í þær ávöxtunarleiðir sem þeir sjálfir hafa valið. Auk þess hefur það tafið og í einhverjum tilvikum komið í veg fyrir að hægt hafi verið að leysa út sparnað eða fá raunhæft yfirlit yfir eignastöðu.


Innlendir sjóðir:
Innlendir sjóðir eru í vörslu Nýja Glitnis banka hf. og í ljósi aðstæðna á fjármálamarkaði hefur ekki verið unnt að fá yfirlit yfir stöðu þeirra allra eða innleysa þær inneignir. Enn er í gildi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 6. október 2008 um tímabundna stöðvun með alla fjármálagerninga sem útgefnir eru af tilteknum fjármálafyrirtækjum á Íslandi , þ.á.m. Glitni banka hf., sjá nánar frétt á heimasíðu Glitnis.
Erlendir sjóðir:
Erlendir sjóðir, sem eru í vörslu Henderson Global Investors, hafa verið opnir en vegna erfiðleika í gjaldeyrisviðskiptum hafa viðskipti með sjóðina verið verulega takmörkuð.

Vegna þessa hefur félagið ekki fjárfest fyrir innborganir viðskiptavina í október og nóvember og í framhaldi ákveðið að skuldfæra ekki innborganir vegna sparnaðarlíftryggingar í desembermánuði. Auk þess hefur verið ákveðið að fresta fjárfestingum í sjóðum fram í janúar þegar yfirlit um inneignir liggur skýrar fyrir.

Félagið varðveitir sparnað þessara tveggja mánaða á sérstökum bankareikningi en óskir þú endurgreiðslu vegna þeirra, þá vinsamlega sendu upplýsingar um kennitölu og bankaupplýsingar á netfangið sparnadur@sjova.is eða hafðu samband við ráðgjafa félagsins í síma 440‐2000 vegna þessarar endurgreiðslu.
Frekari upplýsingar vegna sparnaðarins má finna á vefsíðu félagsins www.sjova.is og við bendum sérstaklega á dálkinn S&S um sparnaðarlíftryggingu.
Bestu kveðjur frá starfsfólki Sjóvár