Sjóvá tekur þátt í samstarfshópi um fækkun eldsvoða á heimilum

Sjóvá tekur þátt í samstarfshópi um fækkun eldsvoða á heimilum

1. júní 2010 skrifaði Lárus Ásgeirsson forstjóri fyrir hönd Sjóvá undir samkomulag um stofnun samstarfshóps sem hefur það markmið að fækka og koma í veg fyrir eldsvoða á heimilum.  Aðild að samstarfshópnum eiga tryggingarfélögin, Brunamálastofnun og  Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins auk þess sem Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Félag Slökkviliðsstjóra og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru aðilar að samkomulaginu.

Sigurður Ingi Geirsson og Fjóla Guðjónsdóttir koma að verkefninu fyrir hönd Sjóvá en tímasetning átaksins er  október 2010.

Markmið vinnuhópsins er að samræma skilaboð til almennings um eldvarnir og beina kröftum að þeim hópum sem líklegir eru til þess að vera ekki með eldvarnir í lagi s.s. þeir sem leigja húsnæði.  Áhersla verður lögð á það grundvallaratriði að öll heimili og leiguhúsnæði sé með reykskynjara.   Sérstaklega verður reynt að ná til þess hóps og hugað að óhefðbundnum dreifingarleiðum í því sambandi eins og t.d. í gegnum leigumiðlanir, með húsaleigubótum og fasteignasölur.  Fræðsluefni verður þýtt á fjögur tungumál og mun fræðsluefnið innihalda eftirfarandi:

  • Grunnatriði eldvarna á heimilum
  • Áherslu á að öll heimili séu búin reykskynjara
  • Brunahættu vegna rafmagns

Jafnframt verður settur á stofn samráðshópur sem Brunamálastofnun ber ábyrgð á að kalla saman árlega til þess að vinna að eldvörnum.  Það er nauðsynlegt að svo margir hagsmunaaðilar geti samræmt sig í verkefni sem þessu enda samfélagsleg skírskotun augljóst og allra hagur að eldvarnir heimila, hvort sem þau eru leigð eða í þinni eign í lagi.