Sjóvá tekur þátt í eldvarnaátaki sem hefst í dag

Meirihluti íslenskra heimila sinnir eldvörnum ekki nægilega vel samkvæmt könnun sem gerð var fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS).  Hún sýnir að enginn eða aðeins einn reykskynjari er á um þriðjungi heimila. Innan við helmingur heimila hefur allan nauðsynlegan eldvarnabúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.


Sjóvá tekur þátt í verkefninu ásamt fleiri fagaðilum og er ástæðan m.a. könnunin sem sýnir hvað eldvörnum er ábótavant í landinu. Það er ánægjulegt fyrir Sjóvá að koma að svo veigamiklu verkefni þar sem við getum miðlað af áralangri reynslu okkar af forvörnum til að fækka eldsvoðum í landinu.
Í framhaldi af þessu átaki viljum við einnig hvetja starfsfólk Sjóvá til að skoða eldvarnir á sínu heimili og upplýsa alla fjölskyldumeðlimi um útgönguleiðir og notkun slökkvitækja.
LSS og slökkviliðin í landinu heimsækja börn í 3. bekk grunnskóla um allt land dagana 19.-30. nóvember og veita þeim og fjölskyldum þeirra fræðslu um eldvarnir. Öll börnin fá að gjöf söguna af Brennu-Vargi og slökkvihetjunum Loga og Glóð og gefst kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni. Samkvæmt könnun Capacent telja um 99% aðspurðra átak LSS mikilvægt.
Nýtt bandalag um auknar eldvarnir
Eldvarnabandalagið var stofnað 1. júní 2010 og er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir heimilanna. Aðild að því eiga: Brunamálastofnun, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar

Helstu niðurstöður Capacent: Eldvörnum mjög ábótavant
  • 4% heimila eru án reykskynjara en athygli vekur að meirihluti þeirra segist eiga óuppsettan reykskynjara. Á öðrum 28% heimila er aðeins einn reykskynjari. Eindregið er mælt með tveimur eða fleiri virkum reykskynjurum á hverju heimili.
  • Slökkvitæki er á um 68% heimila. Það er nokkur aukning frá sambærilegum könnunum 2006 og 2008.
  • Aðeins um 57% heimila segjast eiga eldvarnateppi. Mælt er með því að hafa eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsi.
  • Tæplega 45% segjast vera með allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi en það teljast vera lágmarks eldvarnir á heimili.