Sjóvá styrkir smíði nýrra björgunarskipa Landsbjargar

Sjóvá styrkir smíði nýrra björgunarskipa Landsbjargar

Sjóvá afhenti í dag Slysavarnafélaginu Landsbjörgu styrk upp á 142,5 milljónir króna til smíða á þremur nýjum björgunarskipum samtakanna. Smíði fyrsta skipsins er hafin í Finnlandi og er afhending þess áætluð á goslokahátíð í Vestmannaeyjum sumarið 2022, en þar verður heimahöfn þess. Hin skipin tvö verða afhent 2022 og 2023.

Hvert þessara nýju skipa kostar 285 milljónir króna. Með samkomulagi sem gert var í janúar síðastliðnum milli ríkis og Landsbjargar var tryggð allt að helmings fjármögnun þeirra og með styrknum frá Sjóvá gat smíði þessara þriggja skipa hafist. Markmið Landsbjargar er síðan að endurnýja öll 13 björgunarskip sín.

Það er okkur hjá Sjóvá mikil ánægja að geta stutt við þetta brýna verkefni samtakanna en með tilkomu björgunarskipanna verður bylting í viðbragðstíma og aðbúnaði fyrir áhafnir og skólstæðinga. Skipin skipta þannig miklu máli fyrir öryggi sjófarenda og samfélagið allt.