Sjóvá styrkir nemendur við HR

Nýlega var undirritaður samningur um stuðning Sjóvá við Visku, hagsmunafélag nemenda við Háskólann í Reykjavík (HR), sem felur í sér fjárstyrk að upphæð hálf milljón króna. Samningurinn er liður í stefnu Sjóvá að leggja góðum málum í íslensku samfélagi lið, en félagið styrkir einnig Íþróttasamband fatlaðra, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Íþróttasamband Íslands, Kvennahlaupið, Listahátíð í Reykjavík og fjölmörg íþróttafélög um land allt.


Hlutverk Visku er að gæta réttinda nemenda HR, jafnt innan veggja skólans sem utan, og standa fyrir öflugu félagslífi. Samningur Sjóvá og Visku gildir til eins árs og er þetta þriðja árið í röð sem Sjóvá styrkja nemendur skólans.