Sjóvá opnar Forvarnahúsið í sumarbyrjun

Sjóvá opnar Forvarnahúsið í sumarbyrjun

Í byrjun sumars hefur Forvarnahúsið starfsemi sína. Forvarnahúsið er fræðslumiðstöð þar sem gestir fá meðvitund um þau lífsgæði sem felast í forvörnum á ýmsum sviðum. Í Forvarnahúsinu getur fólk prófað hvernig er að lenda í árekstri á 6 kílómetra hraða og hvernig er að velta bifreið. Þá verður ungu fólki boðið að prófa Go kart bíla. Loks verður í Forvarnahúsi margvíslegur búnaður sem tengist forvörnum á heimilum og í fyrirtækjum. Forvarnarhúsið verður staðsett í Morgunblaðshúsinu í Kringlunni, nánar tiltekið í svonefndri pappírsgeymslu.Í Forvarnahúsi verða námskeið og kynningar fyrir ökunema, grunnskólanemendur, fyrirtæki og foreldra. “Við stefnum á að gestir á námskeiðum og kynningum verði um 10 þúsund árið 2007. Forvarnahúsið mun bjóða öllum nemendum í elstu bekkjum grunnskóla að koma í heimsókn og þá verður áfram sérstök áhersla á ungt fólk sem er að ljúka bílprófi”, segir Þór Sigfússon forstjóri Sjóvár en félagið stendur að Forvarnahúsinu. “Við finnum fyrir miklum áhuga hjá okkar viðskiptavinum á forvörnum og viljum koma til móts við hann. Ætlunin er að Forvarnahúsið starfi sjálfstætt og leitað verði samstarfsaðila sem víðast. Mörg fyrirtæki sýna forvörnum vaxandi áhuga og við viljum að Forvarnahúsið verði vettvangur ýmissa fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka í forvörnum.“

Þá er stefnt að því að Forvarnahúsið verði með búnað sem er að hluta til færanlegur og stefnt verður að því strax í sumar að vera með uppákomur úti á landi. Unnið er að gerð áætlana um uppákomur í húsinu en staðsetning þess býður upp á mikla möguleika til að laða að gesti sem eru m.a. á leið í eða úr verslunarmiðstöðinni Kringlunni.

Þór segir að viðhorf til forvarnastarfsemi hafa breyst mikið á undanförnum árum. Mörg þeirra fyrirtækja sem eru í viðskiptum hjá Sjóvá líta orðið á forvarnir sem eðlilegan þátt í starfsemi sinni. Þá er aukinn áhugi hjá almenningi fyrir forvörnum. Við viljum sjá sjálfstætt forvarnahús vaxa og dafna. Til að forvarnarstarfsemin hérlendis fái traustan sess þá þurfum við að gera spennandi fyrirtæki úr forvörnum og hætta að líta á forvarnir sem góðgerðastarfsemi. Það er meðal annars markmiðið með Forvarnahúsinu”, segir Þór.