Sjóvá gerir samning við KFUM og KFUK á Íslandi

Sjóvá gerir samning við KFUM og KFUK á Íslandi

KFUM og KFUK á Íslandi og Sjóvá trygginga- og forvarnafélag skrifuðu undir samstarfssamning í Vatnaskógi í gær. Öll börn sem og starfsfólk félagsins verða tryggð hjá Sjóvá.

Viðstaddir athöfnina voru 100 drengir sem þar dvelja í flokki. Forvarnarstarf KFUM og KFUK á Íslandi er fjölþætt, en rúmlega 17.000 börn og unglingar taka árlega þátt í starfi félagsins.

Í fréttatilkynningu KFUM og KFUK kemur fram að áhersla KFUM og KFUK á að elska og virða eigið líf og annarra falli vel að forvarnarstefnu Sjóvá og þó mikil blessun hvíli yfir sumarbúðum KFUM og KFUK á Íslandi sé gott að vita til þess að jafnt öflugt og traust fyrirtæki eins og Sjóvá sýni félaginu það traust að gerast bakhjarl þess.
 
Sumarbúðir KFUM og KFUK á Íslandi eru fimm talsins, Vatnaskógur í Svínadal, Vindáshlíð í Kjós, Kaldársel í Hafnafirði, Hólavatn í Eyjafirði og Ölver undir Hafnarfjalli.

Mikil aðsókn hefur verið í sumarstarfið í sumar og verða þáttakendur vel á fjórða þúsund sem er aukning á milli ára.