Sjóvá færa Borgarskjalasafni góða gjöf

Sjóvá færa Borgarskjalasafni góða gjöf

Nýlega færði Sjóvá Borgarskjalasafni Reykjavíkur til varðveislu og eignar brot úr sögu félagsins. Um er að ræða talsvert magn skjala allt frá stofnun Sjóvátryggingafélags Íslands 1918 en skjölin voru gefin af tilefni 90 ára afmælis Sjóvá.

Í skjölunum má finna ýmsan skemmtilegan fróðleik allt frá fyrstu árum Sjóvátryggingafélagsins. Í gögnunum er m.a. að finna fyrsta vátryggingasamning Sjóvá frá 1919, tryggingaskírteini fyrir Gullfoss frá 1939 og afrit af stofnskjali Sjóvátryggingafélags Íslands með undirritun stofnenda.

Það var Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá sem afhenti Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði safnið við athöfn á 90 ára afmælisdag Sjóvá. Þór sagði að þessu tilefni að skjölin væru mikilvægar heimildir úr sögu Sjóvá. „Við það að fara í gegnum þessi gömlu gögn sér maður hversu saga Sjóvá er margbrotin og samtvinnuð efnahags- og atvinnulífi okkar allt frá upphafi síðustu aldar. Við erum stolt af því að færa Borgarskjalasafni Reykjavíkur gögnin af þessu tilefni“ sagði Þór.

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður sagði gögnin afar skemmtileg. „Gögnin eru alveg frá stofnun Sjóvátryggingafélags Íslands 1918 og þarna eru t.d. allskyns vátryggingasamningar við hin ýmsu fyrirtæki frá 1919-1941, glerplötur sem voru auglýsingar í bíóhúsum og margt fleira.“ Sagði Svanhildur.
Að sögn Svanhildar vinna starfsmenn Borgarskjalasafnsins nú við að skrá skjölin og stefnt er að því að safnið verði fullskráð og aðgengilegt 1. apríl 2009.

Allar nánari upplýsingar gefa:
Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður í síma 411 6060 eða
Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvá í síma 844-2022.