Sjóvá-Almennar fá viðurkenningu.

10. nóvember 2003
Á ráðstefnu sem haldin var 10. nóvember 2003 af Hollvinum hins gullna jafnvægis, www.hgj.is, hlutu Sjóvá-Almennar viðurkenningu sem ber heitið „Lóð á vogarskálarnar“. Viðurkenningin er veitt fyrir framlag sem stuðlar að samræmingu vinnu og einkalífs í orðið og verki. Í flokki opinberra aðila hlutu Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, ÍTR, viðurkenningu.

Í niðurstöðum starfsmannakönnunar sem félagið lét gera í september sl. og kynnar verða starfsmönnum innan skamms kemur m.a. fram að félagið kemur mun betur út á mörgum þáttum en fyrirtæki gera að jafnaði. Afgerandi betri útkoma er á þáttum eins og vinnuaðstöðu, tækjum og gögnum og ýmsu því er lítur að framlagi og hollustu starfsmanna.Jafnvægi vinnu og einkalífs hefur samkvæmt niðurstöðum Gallup hvergi mælst hærra en hjá Sjóvá-Almennum. Mældist afstaða starfsmanna til fullyrðingarinnar „Mér finnst gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs hjá mér“ 4,24 af 5,0 mögulegum. Hafði þessi fullyrðing hækkað umtalsvert frá árinu 2001 en þá var niðurstaðan 4,01.

Það hefur sýnt sig hjá félaginu að markviss vinna á sviði mannauðsmála skilar árangri. Til þess að meta árangurinn eru framkvæmdar starfsmannakannanir með reglubundnu millibili, auk þess sem fylgst er með þáttum eins og starfsmannaveltu, meðal starfsaldri, veikindafjarvistum, yfirvinnu og fleiri þáttum sem gefa vísbendingar um líðan starfsmanna og álag. Líði starfsmönnum vel í vinnunni verða afköst þeirra meiri, þeir veita betri þjónustu, starfsmannavelta og fjarvistir vegna veikinda minnkar og svo mætti lengi telja. Líðan starfsmanna hefur því áhrif á þjónustustig og kostnað vegna veikinda, þjálfunar nýrra starfsmanna o.fl.

Í rökstuðningi dómnefndar var vísað til fjölmargra þátta í starfsemi Sjóvá-Almennra. Auk framangreindra þátta var fjallað um tengsl fjölskyldna starfsmanna við félagið t.d. í gegnum barnanámskeið og ýmsa atburði á vegum starfsmannafélagsins, fræðsluerindi fyrir starfsmenn og maka, öflugt heilsueflingarstarf o.fl.