Sjóva afhendir Sjóminjasafninu gjöf

Sjóva afhendir Sjóminjasafninu gjöf

Sjóvá hóf formlega starfsemi þann 15. janúar 1919 og fagnar því 90 ára afmæli sínu um þessar mundir. Undirbúningur að stofnun félagsins hófst á haustmánuðum ársins 1918 þegar langþráð fullveldi þjóðarinnar blasti við og um leið var grunnur lagður að öflugri samkeppni við erlend vátryggingarfélög sem störfuðu þá á Íslandi í gegnum umboðsskrifstofur sínar.
Í tilefni tímamótanna afhenti Sjóvá, Sjóminjasafni Reykjavíkur nokkra hluti sem hafa verið lengi í eigu félagsins. Hlutirnir eru m.a. líkan af áttæringi, sem Sigurður Gunnarsson frá Bæjum á Snæfjallaströnd smíðaði. Líkanið stendur á hluta af upphaflegu afturstefni vertíðarbátsins Aðalbjörg RE 5, sem var 30 tonna eikarbátur, smíðaður á kreppuárinu 1934. Aðalbjörg var alla tíð fengsælt happafley og áhöfn hennar vann sér það meðal annars til frægðar að bjarga 198 manns af kanadísku herskipi sem strandaði við Viðey árið 1944. Aðalbjörgu var lagt árið 1986 og er báturinn varðveittur á Árbæjarsafni.


Í tilefni afmælisins ritar Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá grein á vef félagins og segir þar m.a.: „Rétt eins og áræðni og bjartsýni einkenndi stofnun Sjóvá fyrir 90 árum horfum við með sama hugarfari til framtíðarinnar. Áherslur hafa breyst í rekstri. Við höfum verið í fararbroddi, kynnt nýjungar og munum gera það áfram.“