Samið um aðgerðir Eldvarnabandalagsins

Samið um aðgerðir Eldvarnabandalagsins

Eldvarnabandalagið hyggst efla starf sitt að úrbótum í eldvörnum heimila og fyrirtækja á þessu ári til að auka öryggi fólks og draga úr eignatjóni vegna eldsvoða. Samkvæmt samkomulagi um aðgerðir sem gert var nýlega hyggst Eldvarnabandalagið meðal annars leggja áherslu á að auka eldvarnir í leiguhúsnæði og hjá ungu fólki en rannsóknir sýna að þessir hópar eru berskjaldaðri en aðrir þegar kemur að eldvörnum. Garðar H. Guðjónsson ráðgjafi hefur verið ráðinn til að stýra verkefnum Eldvarnabandalagsins á árinu.

Eldvarnabandalagið var stofnað sumarið 2010 og hefur síðan ráðist í margvísleg verkefni til að efla eldvarnir heimila og fyrirtækja. Bandalagið hefur gefið út ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir heimila og fræðsluefni og leiðbeiningar um eigið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana, staðið að rannsóknum á eldvörnum heimila og stuðlað að umræðu um eldvarnir í fjölmiðlum. Nýlegar rannsóknir sýna að fræðsla um eldvarnir hefur skilað sér hægt og bítandi í öflugri eldvörnum á heimilum.

Aðild að Eldvarnabandalaginu eiga eftirfarandi fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök:
Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Auk þess að efla eldvarnir í leiguhúsnæði og hjá ungu fólki hyggst Eldvarnabandalagið meðal annars stuðla að auknum eldvörnum á vinnustöðum með eigin eldvarnaeftirliti fyrirtækja og stofnana, auka þekkingu og öryggi vegna svonefndrar logavinnu og fræða almenning um eldvarnir og mikilvægi þeirra.