Ökuníðingarnir borgi hærri iðgjöld

Þeir sem safnað hafa punktum hjá lögreglu vegna umferðarlagabrota geta átt von á því að þurfa að greiða hærri iðgjöld af ökutækjatryggingum hjá Sjóvá í haust. Félagið ætlar að breyta formi ökutækjatrygginga sinna með það að markmiði að viðskiptavinir verði greindir eftir því hversu mikil áhætta er talin vera af viðskiptum við þá.

Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, segir markmiðið að verðlauna þá sem síður valdi slysum en jafnframt að reyna að hafa áhrif á þá sem eru í áhættuhópum. Iðgjöld geta því orðið mishá eftir ákveðnum bakgrunnsbreytum en þær hafa ekki enn verið að fullu ákveðnar. Þór segir þó nær því öruggt að punktastaða tryggingahafa muni hafa áhrif en auk þess sé líklegt að aldur, viðgerðarkostnaður og búnaður tiltekinna bíltegunda verði hafður til hliðsjónar.
(frétt á mbl.is, 4. júlí 2007)