Nýtt skipurit hjá Sjóvá

Stjórn Sjóvá hefur samþykkt breytingar á skipulagi félagsins.

Markmið breytinganna er að tryggja áframhaldandi forystu Sjóvá á vátryggingarmarkaði til framtíðar og mæta betur sívaxandi kröfum viðskiptavina og vaxandi samkeppni.

Lögð er sérstök áhersla á sölu og þjónustu með tveimur nýjum sviðum, fyrirtækjasviði og einstaklingssviði. Starfsemi Sjóvá verður skipt í eftirfarandi fimm svið:

Fyrirtækjasvið
Þjónusta við fyrirtæki og sveitarfélög tilheyrir fyrirtækjasviði og verður Sveinn Segatta framkvæmdastjóri þess.

Einstaklingssvið
Þjónusta við einstaklinga, frumkvæðissala, bankatryggingar, útibú, netviðskipti og umboðsmenn tilheyrir einstaklingssviði. Framkvæmdastjóri sviðsins verður Ómar Svavarsson.

Fjármálasvið
Fjármálasvið ber ábyrgð á fjárfestingum, fjárstýringu, lánastarfsemi, innheimtum, kostnaðarbókhaldi, uppgjörum og áætlun. Halldór Gunnar Eyjólfsson verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Sigurður Sigurkarlsson sem verið hefur framkvæmdastjóri fjármálasviðs um árabil lætur af störfum síðar á árinu eftir farsælan starfsferil og mun fram að þeim tíma setja nýjan framkvæmdastjóra inn í störfin.

Tjónasvið
Uppgjör tjóna, bótaákvarðanir og tjónaskoðunarstöð tilheyrir tjónasviði og framkvæmdastjóri þess er Árni Gunnarsson.

Viðskiptasvið
Þorvarður Sæmundsson er framkvæmdastjóri viðskiptasviðs, sem ber ábyrgð á endurtryggingum, afkomustýringu og tölfræði, lögfræðiþjónustu, vöruþróun og sjótryggingum. Sjóvá líftryggingar heyrir jafnframt til viðskiptasviðs.

Tvær deildir munu jafnframt heyra beint undir forstjóra, en það er starfsmannaþjónusta, sem Auður Daníelsdóttir veitir forstöðu og markaðs- og kynningarmál, sem Sigfríð Eik Arnardóttir veitir forstöðu.

Nánari upplýsingar veitir Þorgils Óttar Mathiesen forstjóri í síma 569-2602.