Hrönn Helgadóttir er nýr útibússtjóri Sjóvá á Egilsstöðum. Hún tekur við stjórnun útibúsins af Arnari Jóni Óskarssyni sem hefur gegnt stöðunni sl. sex ár eða frá árinu 2018.
Hrönn Helgadóttir er fædd á Akureyri, ólst upp á Svalbarðseyri til 14 ára aldurs og flutti þá til Akureyrar. Hrönn er hárgreiðslumeistari frá Iðnskólanum í Reykjavík og hefur lengst af gegnt því starfi, síðast í Danmörku er hún sinnti daglegum rekstri á stofu í Horsens á Jótlandi. Eftir níu ára dvöl í Danmörku flutti Hrönn aftur til landsins árið 2021 og settist þá að á Egilsstöðum og tók við starfi þjónustustjóra í útibúi Sjóvá. Hrönn er gift Steingrími Jónssyni, verkefnastjóra hjá Múlaþingi, og eiga þau þrjú börn.
„Ég er spennt að takast á við þær áskoranir sem þessu starfi fylgja. Á sama tíma hlakka ég til að veita íbúum svæðisins áfram þá frábæru þjónustu sem Sjóvá hefur veitt í áraraðir.“
Sjóvá er með stærsta útibúanet tryggingafélaganna á landinu. Í útibúinu á Egilsstöðum er tekið á móti viðskiptavinum alla virka daga frá kl. 11-15.