Þorgils Óttar Mathiesen forstjóri Sjóvá hefur keypt 40% hlut í fasteigna- og þróunarfélaginu Klasa. Þorgils Óttar mun í kjölfar fjárfestingarinnar taka við stjórnun félagsins og um leið láta af störfum sem forstjóri Sjóvá. Aðrir eigendur Klasa eru Sjóvá og Glitnir.Stjórn Sjóvá hefur ráðið Þór Sigfússon sem forstjóra en hann mun hefja störf í desembermánuði. Þór Sigfússon hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands en hann tók við því starfi í maí 2003. Þór starfaði áður sem ráðgjafi fjármálaráðherra (1993-1998) og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Norræna fjárfestingarbankanum (1998-2003). Hann er með meistaragráðu í hagfræði og hefur stundað doktorsnám í alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Þór hefur m.a. skrifað þrjár bækur um Ísland og alþjóðavæðingu, Örríki á umbrotatímum, Landnám - útrás íslenskra fyrirtækja og Straumhvörf. Þór er 41 árs gamall og er hagfræðingur að mennt.