Notkun snjallsíma undir stýri er sláandi algeng samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem unnin var fyrir Sjóvá, samkvæmt henni nota tæplega 70% ökumanna símann ólöglega undir stýri. Þetta eru vondar niðurstöður og ljóst að umferðaröryggi er ógnað með þessari þróun.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að það er töluvert meiri notkun hjá yngri aldurshópum og mikill munur á aldurshópnum 18-44 ára miðað við 45 ára og eldri. Í yngri aldurshópnum nota níu af hverjum tíu ökumönnum símann ólöglega undir stýri. Tveir þriðju ökumanna lesa eða senda skilaboð við akstur og sama hlutfall talar í símann án handfrjáls búnaðar. Ef tekið er heildarhlutfall allra ökumanna þá lækkar hlutfallið lítillega, eða í sjö af hverjum tíu ökumönnum sem nota símann ólöglega. Þetta er samt sem áður sláandi mikil notkun.
Annað athyglisvert sem kom fram var að allir þátttakendur svöruðu að símnotkun undir stýri væri hættuleg og hefði mikil áhrif á aksturshæfni. Samt virðist fólk að litlu leyti hegða sér í samræmi við það. Hækkun á sektum virðist ekki ennþá hafa áhrif á þessa hegðun. Meirihlutinn í rannsókninni vissi að búið væri að hækka sektir úr 5.000 kr. í 40.000 kr., en það virðist ekki draga úr notkuninni.
Það er alveg ljóst að til þarf samfélagslegt átak og auknar forvarnir til að sporna gegn þessari þróun. Fólk þarf að átta sig á að þetta er ekki einkamál hvers og eins, þessi hegðun ógnar ekki bara öryggi notandans heldur allara annarra í umferðinni. Tökum höndum saman og leggjum símanum meðan við keyrum.