Niðurstöður UFS áhættumats fyrir Sjóvá

Niðurstöður UFS áhættumats fyrir Sjóvá

Sjóvá hefur nú fengið niðurstöðu UFS áhættumats Reitunar sem gerir grein fyrir því hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Í matinu fékk Sjóvá lokaeinkunnina B2 og 75 punkta af 100 mögulegum sem telst góð einkunn, en meðaltal íslenska markaðarins stendur nú í 65 punktum.

Í niðurstöðu Reitunar segir:

„Sjóvá er fyrir ofan meðaltal á UFS heildareinkunn í samanburði við innlenda útgefendur sem hafa farið í gegnum greiningu hjá Reitun. Félagið stendur einkum vel í flokki um félagsþætti í samanburði við markaðinn og hlýtur hæstu einkunn gefna fyrir flokkinn“.

Sjóvá fær hæstu stig í félagsþáttum, eða 97 stig, en í umsögn Reitunar kemur fram að félagið hafi náð góðum árangri í að auka ánægju starfsfólks. Niðurstöður kannana um ánægju viðskiptavina og virk tengsl við samfélagið á sviði forvarna skila jafnframt hárri einkunn. Þá fær Sjóvá 77 stig í umhverfisþáttum, sem er yfir meðaltali og 65 stig í stjórnarháttum, sem er á pari við meðaltali íslenska markaðarins. Félagið telst almennt standa vel að sjálfbærni í starfseminni en hefur jafnframt tækifæri til að hafa aukin áhrif á þessum vettvangi.

„Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða sem staðfestir að við erum að standa okkur mjög vel. Starfsfólk lagði ríka áherslu á UFS þætti í nýlegri stefnumótun og er þetta enn ánægjulegra fyrir vikið, þó enn séu tækifæri til bætingar. Við höldum áfram að vinna markvisst að þessum málum,“

segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.

UFS (e. ESG) áhættumat er framkvæmt fyrir hönd fjárfesta á útgefendum verðbréfa sem nýta matið til að veita félögum í eignasöfnum sínum aðhald og ýta undir framþróun á þessum sviðum. Samantekt matsins og nánari upplýsingar má nálgast hér.