Námskeið fyrir leiðbeinendur Vinnuskóla Grindavíkur

Námskeið fyrir leiðbeinendur Vinnuskóla Grindavíkur

Frétt af grindavik.is

„Þetta er í þriðja sumarið sem ég hitti leiðbeinendur vinnuskóla Grindavíkur," segir Fjóla Guðjónsdóttir forstöðumaður forvarna hjá Sjóvá.

Grindavíkurbær leggur mikla áherslu á öryggi unglinganna í vinnuskólanum og því er afar mikilvægt að fá tækifæri til þess að hitta leiðbeinendur áður en Vinnuskólinn hefst. Það er mikil ábyrgð að stjórna vinnuhópi unglinga enda margir krakkar í sinni fyrstu vinnu.
 
„Við förum því yfir hvaða reglur gilda um vinnu unglinga, helstu ástæður slysa og mikilvægi þess að leiðbeinendur skipuleggi daginn til þess að koma í veg fyrir slys og tjón á búnaði og tækjum bæjarins. Leiðbeinendur Vinnuskólans hefja vinnu á morgnanna áður en unglingarnir mæta til vinnu og þá nota þau tímann til þess að skipuleggja og fara yfir verkefni dagsins t.d. hvaða persónuhlífar þarf að taka með svo sem vesti og keilur ef verið er að vinna nálægt umferð. Farið er yfir rétta og örugga notkun sláttuvéla og sláttuorfa. Það er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að þeir sem eiga að vinna á þessum tækjum kunni á þær og noti rétt. Ekki er hægt að ganga út frá því að allir kunni að slá á sláttuvél og geri það rétt. Akstur á ökutækjum í eigu bæjarins er einnig hluti af námskeiðinu, sem dæmi má nefna fágang tækja á palli sem og almennt hugarfar við akstur, bílbeltanotkun og að virða hraða- og umferðarreglur. Einnig er farið yfir hvernig bregðast á við ef upp koma óvænt tilvik einnig fara leiðbeinendur á námskeið í skyndihjálp þannig að bæði þekking á réttum viðbrögðum sem og hvað þau eiga að gera er til staðar. Allt er þetta liður í því að gera góða starfsmenn ennþá betri og óhætt er að fullyrða að slysa- og tjónavarnir eru í góðum farvegi hjá Vinnuskólanum," segir Fjóla.