Lárus Ásgeirsson nýr forstjóri Sjóvá

Stjórn Sjóvá-Almennra Trygginga hf. hefur ráðið  Lárus Ásgeirsson sem forstjóra félagsins frá 9. nóvember. Lárus tekur við af Herði Arnarsyni sem ráðinn hefur verið forstjóri Landsvirkjunar.

Lárus er 52 ára gamall, vélaverkfræðingur að mennt frá Íslandi og Bandaríkjunum. Hann starfaði hjá Marel frá 1991 m.a. sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála, forstjóri Scanvaegt International í Danmörku í eigu Marel, framkvæmdastjóri erlendra sölu og þjónustufyrirtækja Marel í yfir 20 löndum og staðgengill forstjóra. Lárus er kvæntur Sigurveigu Þóru Sigurðardóttur lækni og eiga þau tvo syni.
Umfangsmikilli endurskipulagningu Sjóvá-Almennra Trygginga lauk í síðasta mánuði með flutningi á vátryggingastofni félagsins yfir í nýtt tryggingafélag með traustan rekstur. Með endurskipulagningunni tókst að tryggja að fullu hagsmuni viðskiptavina félagsins. Megin áhersla félagsins verður á almenna tryggingastarfsemi með þjónustu við viðskiptavini að leiðarljósi og hagkvæmni í rekstri.
Eigendur nýs félags eru SAT eignarhaldsfélag hf. (sem er í eigu Glitnis banka hf.) og Íslandsbanki hf. Stjórn nýs vátryggingafélags skipa Heimir V. Haraldsson stjórnarformaður, Þórólfur Jónsson, Erna Gísladóttir, Kristján Ragnarsson og Þórhildur Ólöf Helgadóttir.