Lárus Ásgeirsson hættir störfum

Lárus Ásgeirsson, forstjóri Sjóvár, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu. Lárus var ráðinn til Sjóvár fyrir tæpum tveimur árum í kjölfar endurskipulagningar á félaginu og veitti því forystu á erfiðum tímum.


Lárus Ásgeirsson: „Í framhaldi af því að ný stjórn hefur tekið við félaginu hef ég afráðið að hætta störfum. Vandasömu en árangursríku breytingaferli er lokið og ég tel eðlilegt að nýir eigendur með nýjar áherslur ráði forstjóra. Sjóvá stendur traustum fótum með góðan vátryggingarekstur.  Viðskiptavinir hafa staðið með félaginu og það eru spennandi tímar framundan. Ég vil þakka öllu starfsfólki Sjóvár afar gott og metnaðarfullt samstarf og lít stoltur og ánægður um öxl.
Erna Gísladóttir stjórnarformaður Sjóvá: „Lárus hefur unnið mjög mikilvægt starf fyrir Sjóvá. Hann  var ráðinn til að stýra fyrirtækinu í gegnum ólgusjó óvissu og umbreytinga og það fórst honum vel úr hendi. Við óskum Lárusi velfarnaðar.
 
Ólafur Njáll Sigurðsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs gegnir störfum forstjóra tímabundið.