Hóptrygging fyrir Auðhumlu

Fréttatilkynning 28. janúar 2008

Samningur Sjóvá og Auðhumlu um hóprekstrarstöðvunartryggingu fyrir mjólkurframleiðendur.

Undirritaður hefur verið samningur milli Sjóvá og Auðhumlu um hóprekstrarstöðvunartryggingu fyrir mjólkurframleiðendur.

Tekjumissir bættur í allt að 24 mánuði
Tilgangur vátryggingarinnar er að greiða í allt að 24 mánuði þann tekjumissi sem mjólkurframleiðendur kunna að verða fyrir komi til bótaskylds tjóns úr brunatryggingu þeirra með þeim afleiðingum að röskun verður á framleiðslunni eða hún stöðvast alveg. Sama gildir ef óveðurstjón hafa slík áhrif á framleiðsluna.
Tímamótasamningur
Samningurinn markar viss tímamót því bæði er hér um að ræða nýjung í vátryggingavernd fyrir bændur og aldrei áður hafa bændur tryggt sig með því fyrirkomulagi sem samningurinn kveður á um.

Betra aðgengi að forvarnaþjónustu
Að frumkvæði Sjóvá voru teknar upp viðræður um þróun þessarar vátryggingalausnar fyrir alla kúabændur innan Auðhumlu, en félagið hefur í nokkur ár haft á boðstólum sérstaka rekstrarstöðvunarvernd fyrir mjólkurframleiðendur.  Í samningnum er m.a. kveðið á um samstarf  til að þróa tryggingarverndina frekar jafnframt því sem Sjóvá mun hafa milligöngu um að veita aðang að sérfræðingum í því skyni að veita faglega forvarnaráðgjöf um ráðstafanir í fjósum til þess að koma í veg fyrir tjón eða draga úr alvarleika þeirra.

Með þessu samstarfi félaganna er stigið ákveðið skref til hagsbóta fyrir mjólkurframleiðendur sem mun styrkja enn frekar undirstöður greinarinnar.


Allar nánari upplýsingar veita:
Garðar Eiríksson, deildarstjóri hjá Mjólkursamsölunni (s: 569-2200) og
Sveinn Segatta framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Sjóvá (s: 440-2000)