Hjólandi vorboðar

Þeim sem hefur fjölgað sem kjósa að hjóla í vinnu eða skóla og gera má ráð fyrir að það aukist enn frekar þegar líða tekur á vor og sumar. Hafið í huga að hér á landi eru stígar oft þröngir og á þeim er oft mikil umferð. Á götum getur einnig verið mikil bílaumferð eða þeim lagt þannig að hjólandi þarf að fara út á miðja götu til þess að geta hjólað. Veldu því leið og hjólaðu í samræmi við aðstæður og taktu tillit til annarra notenda stíga.

Flest tjón og slys vegna reiðhjóla verða við þær aðstæður að hjólað var á miklum hraða með þeim afleiðingum að reiðhjólamaður kastaðist fram fyrir sig þegar hann hemlaði og féll. Samstuð hjólreiðamanna við aðra notendur göngu- og hjólreiðastíga er einnig algeng orsök tjóna og slysa.
Höfuðáverkar eru sem fyrr alvarlegustu reiðhjólaslysin. Sem fyrr eru reiðhjólahjálmar sá hlífðarbúnaður sem dregur úr líkum á alvarlegum höfuðáverkum. Notið því alltaf hjálm þegar þið hjólið.

Hvað þarft þú að hafa í huga?

  • Hjólaðu ávallt með hjálm, hvort sem vegalengdin er stutt eða löng.
  • Vertu í endurskinsfatnaði eða endurskinsvesti.
  • Farðu yfir reiðhjólið s.s. bremsur og dekk áður en þú byrjar að hjóla eftir veturinn.
  • Ef þú hjólar með tónlist eða útvarp í eyrunum vertu þá viss um að þú heyrir í umferðinni.
  • Hjólaðu á hjólreiða-og göngustígum þar sem þeir eru eða veldu umferðarminni götur.
  • Farðu eftir umferðarreglum og virtu rétt annarra stíganotenda.