Förum varlega í haust

Nú er skólastarf, íþróttastarf og  frístundastarf komið á fullt skrið. Sérfræðingar í forvörnum hjá Sjóvá benda á að nú sé sól farin að lækka verulega á lofti. Þess vegna er mikilvægt að bílrúður séu hreinar og að ökumenn noti sólgleraugu og skyggni til að minnka hættu á að blindast af sólinni.   Sýnum einnig fyrirhyggju og höldum nægu bili á milli bíla þegar aðstæður eru erfiðar og stillum hraðanum í hóf.

Það er rétt að hafa í huga að hámarkshraði er miðaður við bestu aðstæður. Þegar sólin er farin að lækka á lofti og umferðin þyngist þá eru ekki kjör aðstæður til aksturs.
Sjóvá hvetur ökumenn til að vera tímanlega á ferð sinni til að lágmarka streitu í umferðinni. Þeir sem ferðast á milli fótgangandi eða á reiðhjólum þurfa einnig að hafa í huga aukna umferð og breyttar aðstæður ökumanna. Því er rétt að sýna sérstaka aðgát þegar farið er yfir götur og á gatnamótum.

Forvarnir eru besta tryggingin.  Spennum bílbeltin og spennum börnin rétt í viðeigandi öryggisbúnað. Keyrum varlega í umferðinni og sýnum sérstaka aðgát í nánd við skóla. Notum haustið til að fara yfir ljósabúnað ökutækja og hjóla, finnum til endurskinsvesti og merki og verum tilbúin fyrir skammdegið.