Á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO, World Health Organization) kemur fram að skert athygli við akstur vegna farsímanotkunar sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa á heimsvísu. Ætla má að um 12-25% allra umferðarslysa megi rekja beint til notkunar farsíma við akstur.
Sjóvá og Samgöngustofa taka höndum saman og snúast gegn hættulegri notkun farsíma og annarra snjalltækja undir stýri undir yfirskriftinni Ekki taka skjáhættuna. Herferðin sýnir okkur fáránleika þess sem við gerum í raun og veru þegar við notum símann undir stýri og hvetur okkur til að setja tækin á akstursstillingu á meðan við keyrum.
Sjóvá og Samgöngustofa hvetja öll til að setja símana á akstursstillingu og auka þannig öryggi í umferðinni
Hvað er akstursstilling?
Akstursstilling aðstoðar okkur við að halda athygli við aksturinn og virkar þannig að á meðan þú ert að keyra berast ekki skilaboð, bara sérvaldir geta hringt í þig og síminn er ekki að valda truflun við aksturinn. Það besta er að þú þarft bara að setja aksturssillingu upp einu sinni, eftir það veit síminn þegar þú ert að keyra og setur akstursstillingu á sjálfkrafa.
Mikilvægt að vera vakandi í umferðinni
Allt bendir til þess að fólk sem talar í farsíma við akstur sé fjórum sinnum líklegra til að lenda í slysi. Þá er 23 sinnum líklegra að fólk sem les og eða skrifar skilaboð meðan á akstri stendur lendi í slysi. Þótt það hafi færst í vöxt að fólk noti handfrjálsan búnað þegar það talar í símann undir stýri þá hefur farsímanotkun án slíks búnaðar einnig aukist sem er miður. Á Íslandi er ólöglegt að nota farsíma eða snjalltæki án handfrjáls búnaðar við akstur og eru viðurlögin 40.000 krónur og 1 refsipunktur í ökuferilsskrá.
Hægt er að kynna sér átakið á vefsíðunni www.skjáhætta.is. Þar má nálgast góð ráð og upplýsingar til að sporna gegn akstri undir skjáhrifum en þar er einnig að finna fræðslumyndbönd sem sýna hvernig setja á upp akstursstillingu fyrir farsíma. Þannig má forðast það að taka skjáhættu í umferðinni og stuðla með því að eigin öryggi og annarra.
Verkefnið er unnið af Pipar\TBWA í samstarfi við Sjóvá og Samgöngustofu. Sveinn Speight tók myndirnar og Úlfur Eldjárn samdi tónlistina.