Eigendur torfærutækja geta valið um slysatryggingar

Eigendur torfærutækja geta valið um slysatryggingar

Sjóvá mun gefa eigendum torfæruökutækja kost á því að vera áfram með slysatryggingu ökumanns og eigenda, þrátt fyrir að hún verði ekki lengur lögboðin frá og með 1. janúar 2020.

Um er að ræða eigendur vélsleða, fjór- og torfæruhjóla sem ekki eru ætluð til notkunar í almennri umferð.

Tryggingar þessara ökutækja munu því endurnýjast óbreyttar og nýjar tryggingar verða gefnar út með slysatryggingunni innifalinni eins og verið hefur.  Stærsta breytingin er hins vegar sú að eigendur þessara ökutækja hafa frá áramótum val um að kaupa þessa tryggingu og geta þeir sagt þeim upp ef þeir óska þess. Þeim verður þó áfram skylt samkvæmt lögum að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir þessi tæki.

Þeir sem kjósa að segja upp slysatryggingu ökumanns og eiganda hafa aðra valkosti til að slysatryggja sig við akstur torfæruökutækja. Sjóvá hvetur þá til þess að hafa samband til að fá upplýsingar um þá kosti og ráðleggingar um hvaða slysatrygging hentar þeim best, en miklu getur munað á iðgjöldum mismunandi slysatrygginga.

Rétt er að benda á að slysatrygging í frítíma, sem er innifalin í Fjölskylduvernd, undanskilur alfarið slys af völdum skráningaskyldra ökutækja, þar með talið torfæruökutækja.