Efla eldvarnir og öryggi í leiguíbúðum Kletts leigufélags

Klettur leigufélag hefur í samvinnu við Eldvarnabandalagið hvatt leigjendur hjá félaginu til að fara yfir eldvarnir á heimilum sínum og hafa samband telji þeir að úrbóta sé þörf. Klettur leigufélag leigir út 450 íbúðir víðs vegar um land. Áður en íbúð er afhent nýjum leigjendum sér félagið um að setja upp viðeigandi búnað, svo sem reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Þetta er gert í samræmi við viðmið Eldvarnabandalagsins um eldvarnir á heimilum.

Klettur leigufélag og Eldvarnabandalagið hafa sent leigjendum Kletts leigufélags bréf um mikilvægi eldvarna ásamt handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir. Tilefni samstarfsins eru rannsóknir sem sýna að eldvarnir eru yfirleitt mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Kletts leigufélags, segir félagið líta á það sem samfélagslega skyldu sína að tryggja nauðsynlegar eldvarnir í íbúðum félagsins og þar með öryggi íbúanna.

- Fyrir afhendingu íbúða til nýrra leigjenda setur Klettur leigufélag upp tilskilinn eldvarnabúnað. Þannig höfum við komið fyrir nauðsynlegum eldvarnabúnaði í stórum hluta þeirra íbúða sem við önnumst rekstur á. Eftir stendur ákveðið hlutfall íbúða þar sem hugsanlega þarf að efla eldvarnir. Því hvetjum við leigjendur til að yfirfara eldvarnabúnað og hafa samband við okkur ef úrbóta er þörf. Við munum þá bæta úr við fyrsta tækifæri, segir Bjarni.

Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, fagnar framtaki Kletts leigufélags en það er eitt helsta áherslumál Eldvarnabandalagsins að efla eldvarnir í leiguhúsnæði.

- Það er fagnaðarefni að stórt leigufélag eins og Klettur leigufélag skuli hafa svo skýra stefnu í eldvörnum. Ég vona að þau skilaboð sem hafa verið send leigjendum félagsins stuðli að bættum eldvörnum og öryggi íbúanna, segir Garðar.