Brunatjón við Miðhraun - Til upplýsinga

Brunatjón við Miðhraun - Til upplýsinga

Vegna brunans hjá Geymslum ehf. viljum við hjá Sjóvá vekja athygli á nokkrum atriðum.

Þeir sem eru tryggðir með Fjölskylduvernd hjá okkur geta átt rétt á bótum sem nema að hámarki 15% af tryggingarfjárhæð innbúsins, fyrir innbú sem geymt er í geymslum utan heimilis og brennur þar. Það þýðir að ef innbú er til dæmis tryggt fyrir 20 milljónir getur sá sem tryggður er, átt rétt á bótum upp að hámarki 3 milljónir vegna brunatjóns á innbúsmunum sem eru geymdir utan heimilis. Þetta gildir óháð því hvort viðskiptavinir hafi tilkynnt okkur um að munir séu í geymslum utan heimilis og það skiptir heldur ekki máli hvort hlutirnir séu geymdir til lengri eða skemmri tíma.

Þeir sem geyma innbú sitt hjá aðilum eins og Geymslum ehf, og það innbú er verðmætara en 15% af tryggingafjárhæð innbús fjölskylduverndarinnar, þurfa að tilkynna okkur um það þannig að við getum skráð geymslustaðinn og verðmæti þess sem þar er inn á tryggingarskírteinið. Þetta á til dæmis við um þá sem flytja alla sína búslóð í geymslur eins og þær sem brunnu í gær.

Þá þurfa þeir sem geyma hluti sem ekki teljast til innbús, t.d. áhöld vegna atvinnu, að vera með sérstakar tryggingar til að fá brunatjón á þeim hlutum bætt.

Við hvetjum viðskiptavini okkar sem áttu muni sem skemmdust í brunanum að Miðhrauni að tilkynna okkur tjónið hér (undir Bruni) og skila eins ítarlegum gögnum um munina sem skemmdust og kostur er. Við förum yfir hverja og eina tilkynningu og leggjum allt kapp á að afgreiða málin eins hratt og vel og mögulegt er.

Ef þú hefur frekari fyrirspurnir hafðu samband við okkur í síma 440-2000 eða í netspjallinu niðri í hægra horninu hér á síðunni.