Bílprófsappið gefið út á ensku og pólsku

Bílprófsappið gefið út á ensku og pólsku

Bílprófsapp Sjóvá var gefið út í samstarfi við Netökuskólann í lok síðasta árs. Það hefur nú verið uppfært og er nú líka í boði á ensku og pólsku.

Þessi uppfærsla gefur fleiri sem ekki eru íslenskumælandi kost á að æfa sig fyrir ökuprófið. Frumherji hefur um nokkurt skeið boðið fólki upp á taka ökuprófin á nokkrum tungumálum en af þeim er vinsælast að taka prófin á ensku og pólsku.

Þá hefur mikil aðsókn verið í próf sem Netökuskólinn hefur boðið upp á á ensku og pólsku svo þörfin fyrir æfingaefni á þessum tungumálum er mikil.

Bílprófsappið er samansett af ökuprófum sem hægt er að spreyta sig á. Verkefnin eru byggð upp alveg eins og ökuprófið sjálft og fá þátttakendur niðurstöðurnar á sama formi. Appið er því bæði góð og þægileg leið til að æfa sig fyrir bílprófið.
„Við vitum að það er mikil eftirspurn eftir snjallsímalausnum og það er sérstaklega þægilegt að æfa sig fyrir bílprófið með þessum hætti. Við fengum frábærar viðtökur við bílprófsappinu okkar þegar það kom út og sáum fljótt að það var einnig mikil eftirspurn eftir æfingaprófum á fleiri tungumálum. Því höfum við nú bætt við verkefnum á bæði ensku og pólsku. Nú geta því enn fleiri mætt vel undirbúnir í ökuprófið og þannig stuðlum við um leið að auknu öryggi í umferðinni. Við erum því virkilega ánægð með að geta boðið íslensku-, ensku- og pólskumælandi ökumönnum upp á þessa lausn, þeim að kostnaðarlausu.“

- Karlotta Halldórsdóttir, verkefnastjóri forvarna

Þá er bara að sækja appið og prófa.