Barnabílstólar frá BNA - Breyting á reglugerð

Þann 1. júlí 2013 tók gildi breyting á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum.  Frá og með þeim tíma þá má eingöngu markaðssetja, selja, flytja inn og nota,  barnabílstóla eða bílpúða með baki, sem uppfylla evrópskar kröfur í ökutækjum eða ECE R44.04. Þetta þýðir að það er ekki lengur leyfilegt að kaupa barnabílstóla í Bandaríkjunum sem uppfylla FMVSS staðla og nota hér á landi.

Í gegnum tíðina hafa margir flutt inn barnabílstóla frá Bandaríkjunum. Því vaknar eðlilega sú spurning hvort hætta eigi að nota barnabílstóla frá BNA þann 1. júlí, hvort fólk verði sektað eða hvort þessi breyting muni hafa áhrif á tryggingarnar þeirra.  Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu þá er ekki ætlunin að taka upp sérstakt eftirlit né verða slíkir barnabílstólar innkallaðir.   Gert er ráð fyrir að foreldrar geti notað barnabílstóla eða sessur með baki þar til barnið passar ekki lengur í þá eða þar til líftími þeirra endar og fargi þeim að því loknu.  Þannig ættu barnabílstólar framleiddir í Bandaríkjunum smátt og smátt að hverfa úr notkun hér á landi.

Hér má sjá tilkynningu Neytendastofu um breytinguna.