Áfram veginn

Áfram veginn

Tvöföldun Suðurlandsvegar

Við óskum landsmönnum öllum til hamingju með boðaða breikkun og aðskilnað akstursstefna út frá höfuðborginni. Saman höldum við áfram baráttunni fyrir bættu umferðaröryggi.
Sjóvá í forystu
Á liðnu ári tók Sjóvá forystu í umræðu um tvöföldun Suðurlandsvegar og gerði skýrslu sem sýnir fram á hagkvæmni þess að tvöfalda veginn í einkaframkvæmd. Sjóvá vill hefja tvöföldun Suðurlandsvegar tafarlaust og er félagið reiðubúið að vera í forystu í þeim efnum. Hugarfarsbreyting hefur orðið í vegamálum og aukinn skilningur er á því að bæta þurfi stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu.

Fréttir af málinu eru aðgengilegar á vef Morgunblaðsins þar sem fjallað er um Suðurlandsveg.

---

7. nóvember síðastliðinn var haldinn fundur um nýjar hugmyndir vegna Suðurlandsvegar og uppbyggingar umferðarmannvirkja.

Húsfyllir var á fundinum, sem fram fór í Tryggvaskála á Selfossi.

Hér er frétt um fundinn sem birtist á vef Samgönguráðuneytisins

Áhugi á að tvöfalda Suðurlandsveg
Á fundi um málefni Suðurlandsvegar í dag lýsti Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá, áhuga forráðamanna fyrirtækisins á því að gangast fyrir tvöföldun vegarins í einkaframkvæmd, allt milli Reykjavíkur og Þjórsárbrúar. Sagði hann brýnt að efna til samkeppni um tilboð í verkið og hönnun þess til að unnt væri bæði að ná hagstæðasta verði og um leið tryggja bestu hönnun á sem öruggustum vegi.

Að fundinum stóðu Sjóvá, sveitarfélögin Árborg, Hveragerði, Ölfus og Grímsnes- og Grafningshreppur og Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi. Auk Þórs töluðu á fundinum Einar Guðmundsson, forstöðumaður Sjóvá forvarnahússins, og Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags ísl. bifreiðaeigenda. Í pallborðsumræðum tóku auk þeirra þátt Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS.

2576 tjón á Suðurlandsvegi
Þór Sigfússon sagði að frá árinu 1990 til dagsins í dag hefðu orðið 2.576 tjón á Suðurlandsvegi og 1.222 slasast. Sagði hann það fjárhagslegan ávinning allra, þar á meðal tryggingafélaga, að draga úr þessum slysum en auk tryggingafélaga bæru bæði þeir sem lentu í slysum og samfélagið allt ákveðinn hluta kostnaðar við slys. Sagði hann engan vafa leika á því að draga myndi úr slysum yrði Suðurlandsvegur með tveimur akreinum í hvora átt, vegriði og lýsingu. Af þeim sökum væri fyrirtækið tilbúið að fjárfesta í slíkri framkvæmd sem ráðast mætti í með einkaframkvæmd sem ríkið myndi greiða á tilteknum tíma með skuggagjaldi í hlutfalli af umferð. Lagði Þór áherslu á að þótt Sjóvá hefði áhuga á málinu og væri tilbúið að hafa ákveðna forgöngu væri rétta leiðin að bjóða út hönnun og fjármögnun og taka hagkvæmasta tilboði. Þór sagði að yrði ákvörðun tekin á næstu vikum mætti auglýsa eftir áhuga hugsanlegra bjóðenda í janúar á næsta ári, undirbúa útboð í framhaldinu og hefja framkvæmdir þannig að verkefninu yrði lokið í lok ársins 2009.
Mikið um aftanákeyrslur
Einar Guðmundsson fór yfir ýmsar tölur um slys og tjón á Suðurlandsvegi á tímabilinu 1990 til dagsins í dag. Kom meðal annars fram í máli hans að flest tjón undanfarin ár hafa verið á kaflanum milli Reykjavíkur og Þrenglsavegamóta, algengustu tjón eru vegna aftanákeyrslu og útafaksturs. Þá sagði hann að á kaflanum milli Þrengslavegamóta og Hveragerðis hefði mætingartjónum fækkað um 21% á tímabilinu frá apríl í fyrra þar til í október í ár.

Runólfur Ólafsson greindi frá helstu niðurstöðum svonefndrar Eurorap-könnunar sem snýst um úttekt á vegum og öryggi þeirra. Sagði hann nokkra góða kafla á Suðurlandsveginum en aðrir fengu lægri einkunn eftir þessum staðli meðal annars vegna skurða og annars í umhverfinu sem væri ekki til þess fallið að minnka áhættu ef til slyss kæmi.

Einkaframkvæmd góð hugmynd
Árni Mathiesen sagði í pallborðsumræðum að það væri góð hugmynd að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar í einkaframkvæmd og vísaði til góðrar reynslu af Hvalfjarðargöngum. Hann sagði hagvöxt hafa aukist meira en spáð var og um leið ykist umferð og kröfur um umbætur í samgöngumálum. Sagði hann ekki vafa leika á því að í einkaframkvæmd gerðust hlutirnir hraðar og slíkt þyrfti ekki að draga úr öðrum samgönguframkvæmdum. Hann svaraði játandi þeirri spurningu frá Sigurði Jónssyni hvort raunhæft væri að ráðast í þessa framkvæmd.

2+2 besti kosturinn
Drífa Hjartardóttir alþingismaður sagði besta kostinn að fá 2+2 framkvæmdina inní samgönguáætlun sem nú væri í endurskoðun og falla frá hugmyndum um 2+1 veg. Einnig kom fram í umræðum að þótt Vegagerðin hefði 2+1 veg á teikniborðinu myndi margt varðandi hönnun hans nýtast fyrir 2+2 veg, svo sem vegna hönnunar mislægra vegamóta og ýmissa öryggisaðgerða.

Fram komu vangaveltur um málsmeðferð og hvað þyrfti til að koma málinu formlega af stað. Svaraði fjármálaráðherra því til að fyrsta skrefið væri tillaga frá samgönguráðherra sem rædd yrði í ríkisstjórn og lögð fyrir stjórnarflokkana og síðan Alþingi til ákvörðunar.