83% framhaldsskólanema nota snjallsíma við akstur

Birt í: Almennar fréttir / 15. ágú. 2017 / Fara aftur í fréttayfirlit
83% framhaldsskólanema nota snjallsíma við akstur

83% framhaldsskólanema nota snjallsíma við akstur samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem unnin var fyrir Sjóvá. Það eru yngstu ökumennirnir sem nota símann minnst við akstur en þeir eldri nota hann töluvert meira. Þannig segjast 27% 17 ára nemenda aldrei nota snjallsíma undir stýri en það hlutfall er aðeins 8% hjá þeim 20 ára og eldri. Um afar marktækar niðurstöður er að ræða þar sem 71% framhaldsskólanema tók þátt í rannsókninni en aðeins er unnið með svör frá þeim nemendum sem voru með bílpróf þegar hún var gerð.

„Þetta eru mjög sláandi niðurstöður og eitthvað sem ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af“ segir Karlotta Halldórsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá. „Það er áhyggjuefni að notkunin skuli aukast svona hratt með aldrinum hjá þessum ungu ökumönnum, það sýnir okkur að við þurfum stöðugt og öflugt forvarnarstarf gegn notkun snjallsíma í akstri sem skilar sér til lengri tíma. Við hjá Sjóvá höfum áður gert könnun á notkun snjallsíma við akstur þar sem kom í ljós að yngstu aldurshóparnir notuðu snjallsímana hvað mest undir stýri og vildum við því skoða þennan hóp nánar. Það er þó rétt að taka fram að engin ástæða er til að ætla að snjallsímanotkun við akstur sé mikið skárri hjá þeim sem eldri eru, miðað við niðurstöður fyrri kannana.“


Helmingur sendir Snapchat skilaboð undir stýri

Þegar snjallsímanotkunin er greind frekar kemur í ljós hversu margt það er sem framhaldsskólanemendur eru að gera í snjallsímunum undir stýri. Flestir þeirra tala í símann eða 71%, 58% leita að upplýsingum á netinu, 44% senda eða svara sms/textaskilaboðum og helmingur sendir Snapchat. Þá skoðar rúmur fjórðungur samfélagsmiðla og 12% horfir á videoklippur.„Þetta er eitthvað sem við verðum að bregðast við, enda sýna rannsóknir að viðbragðstími ökumanna verður mun lengri ef þeir eru að nota símann undir stýri. Þótt nýlegar rannsóknir sýni að Íslendingar séu vel meðvitaðir um hætturnar sem fylgja því að nota símann við akstur þá hegða þeir sér alls ekki í samræmi við það. Það er því ekki breyting á viðhorfi sem við þurfum að sjá heldur breyting á hegðun“ segir Karlotta.

Rannsóknin er unnin upp úr spurningakönnuninni Ungt fólk sem Rannsóknir og greining við Háskólann í Reykjavík framkvæmir á þriggja ára fresti meðal íslenskra framhaldsskólanema. Um er að ræða þýðisrannsókn sem byggir ekki á hefðbundnum úrtökum heldur er reynt að ná til sem flestra í úrtaksrammanum innan þýðisins. Lagður var spurningalisti fyrir alla nemendur sem mættir voru til dagsskóla í öllum framhaldsskólum landsins á tilteknum degi. Spurningarnar sem snúa að notkun snjallsíma í akstri voru bornar fyrir alla þátttakendur sem voru á aldursbilinu 17-20 ára og er aðeins unnið með svör frá þeim framhaldsskólanemum sem höfðu bílpróf þegar könnunin var framkvæmd. Könnunin var lögð fyrir í október árið 2016, gild svör voru 10.717 og var svarhlutfallið í könnuninni 71%.