Höldum fókus

Átakið Höldum fókus 3 stendur yfir dagana 18.-23. ágúst. Sjóvá, Samgöngustofa, Síminn og Tjarnargatan standa fyrir átakinu en markmið þess er að draga úr farsímanotkun undir stýri.

Átakið Höldum fókus er nú haldið í þriðja sinn og stendur það yfir dagana 18.-23. ágúst. Stærsti hluti þess fer fram í Smáralind þar sem gestum gefst kostur á að upplifa með áhrifaríkum hætti hversu hættulegt það er í raun að nota símann undir stýri, án þess þó að stefna sér í voða. Snjallsímanotkun við akstur er orðið eitt helsta áhyggjuefni allra sem koma að umferðaröryggismálum í heiminum og brýnt að ökumenn átti sig á því hversu alvarlegar afleiðingar þessi hegðun getur haft í för með sér.

 

Höldum fókus herferðin hefur haft mælanleg áhrif á hegðun ökumanna og hafa herferðirnar vakið mikla athygli víða um heim og hlotið alþjóðlegar viðurkenningar.

 

83% framhaldsskólanema nota snjallsíma við akstur

Í nýrri rannsókn sem Sjóvá lét gera kom í ljós að 83% framhaldsskólanema nota snjallsíma undir stýri. Flestir þeirra tala í símann en rúmlega helmingur leitar að upplýsingum, sendir eða svarar sms skilaboðum eða sendir Snapchat. Þá skoðar rúmur fjórðungur samfélagsmiðla við akstur og 12% horfir á videoklippur. Rétt er að benda á að fyrri rannsóknir benda því miður ekki til að eldri ökumenn hegði sér mikið betur.


Símanotkun undir stýri eykur slysahættu verulega

Rannsóknir sýna að þegar þú notar síma undir stýri er mun líklegra að þú lendir í slysi. Símanotkun undir stýri dreifir athygli þinni og veldur því að þú sinnir akstrinum verr. Ef þú sendir eða lest skilaboð undir stýri eru til dæmis 23 sinnum meiri líkur á að þú lendir í slysi. Þú hefur augun af veginum í allt að 400% lengri tíma en annars ef þú notar símann við aksturinn. Þú ert líka allt að 18% seinni að bremsa ef athyglin beinist að símanum.

Ef þú skrifar skilaboð undir stýri lítur þú af veginum í fimm sekúndur að meðaltali. Á 70 kílómetra hraða keyrir þú því næstum 100 metra blindandi meðan þú skrifar. Á 90 kílómetra hraða eru það 125 metrar, lengra en heill fótboltavöllur.

SJ-WSEXTERNAL-2